Enski boltinn

Slot sam­mála Klopp varðandi há­degis­leiki

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Slot á hliðarlínunni.
Slot á hliðarlínunni. Bradley Collyer/Getty Images

„Við sýndum fram á að við hötum þegar leikir byrja 12.30,“ sagði Arne Slot, þjálfari Liverpool eftir sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu en Liverpool byrjaði tímabilið á 2-0 sigri á nýliðum Ipswich Town.

Liverpool hóf tímabilið á 2-0 sigri en Slot var þó ekki sáttur með frammistöðu sinna manna framan af leik.

„Eitt af því sem mér var sagt var að Jürgen Klopp (fyrrum þjálfari liðsins) hataði leiki sem byrjuðu hálf eitt. Við sýndum fram á það í dag, fyrri hálfleikurinn var ekki nægilega góður en í síðari hálfleik spiluðum við virkilega vel.“

„Sem lið þá gerðum við stóra breytingu í hálfleik,“ sagði þjálfarinn sem viðurkenndi að hann hafði tekið miðvörðinn Jarell Quansah út af fyrir Ibrahima Konaté til að breyta taktík liðsins.

„En ég verð að hrósa Ipswich þar sem þeir voru mjög árásargjarnir, voru óhræddir og keyrðu á menn í stöðunni einn á einn. Í síðari hálfleik unnum við fleiri einvígi, fleiri seinni bolta og spiluðum boltanum meira bakvið vörnina þeirra.“

„Við þurfum bara að átta okkur á hvernig hann spilar og njóta fótboltans. Við þurfum ekki að setja frekari pressu á hann, bara spila og njóta leikjanna okkar. Svo sjáum við til að endingu,“ sagði Slot að endingu um Mohamed Salah sem var allt í öllu hjá Liverpool í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×