Frá þessu greinir Morgunblaðið.
Áætlanirnar gera ráð fyrir seiðaeldi á Siglufirði, landeldi í Ólafsfirði og áframeldi í sjókvíum í fjörðum á Tröllaskaga. Starfsemin gæti hafist um fimm árum eftir að leyfi eru í höfn.
Samkvæmt frétt Morgunblaðsins vrður sjö nærliggjandi sveitarfélögum boðin 1,4 prósent hlutur í Kleifum endurgjaldslaust, 10,1 prósent samtals. Hlutabréfunum myndu fylgja arðgreiðslur en þau yrðu án atkvæðaréttar og óheimilt að framselja þau.
„Þannig munu sveitarfélögin sem gefa samþykki sitt fá 10,1% af öllum arðgreiðslum félagsins um ókomna framtíð. Við ætlum að tryggja það að sveitarfélögin fái sinn skerf og að ekki gerist aftur það sama og þegar kvótakerfið í sjávarútvegi var endurskipulagt með tilheyrandi hagræðingu, að sveitarfélögin sátu eftir tekjulaus,“ segir Róbert Guðfinnsson, forsvarsmaður Kleifa, stofnandi Genís og einn eigenda Hólshyrnu.