Böðvari og Guðmundi lenti saman í 3-0 sigri Stjörnunnar á FH þann 1. september síðastliðinn. Sá fyrrnefndi gaf Stjörnumanninum olnbogaskot og Guðmundur svaraði fyrir sig með kjaftshöggi. Pétur Guðmundsson, dómari leiksins, virðist ekki hafa séð atvikið enda hvorugum refsað fyrir athæfið á vellinum.
Þar sem Pétur sá atvikið ekki, og af þeim sökum ekki minnst á það í skýrslu hans eftir leik, þurfti málskotsnefnd KSÍ að taka málið fyrir. Atvikið sást vel í útsendingu Stöðvar 2 Sport frá leiknum. Út frá þeim gögnum gat málskotsnefnd KSÍ vísað málinu til aga- og úrskurðarnefndar KSÍ sem tók málið fyrir á reglubundnum fundi hennar í gær og birti niðurstöðuna í dag.
Alvarlegt brot hjá Guðmundi en ekki Böðvari
Samkvæmt úrskurði nefndarinnar gerðist Guðmundur sekur um alvarlegt agabrot og fer fyrir vikið í eins leiks bann.
„Í tilvitnuðu atviki sýnir leikmaður Stjörnunnar í Bestu deild karla, Guðmundur Kristjánsson, af sér alvarlega grófan og hættulegan leik er hann slæmir hendi sinni í höfuð leikmanns FH Böðvars Böðvarssonar,“ segir í úrskurðinum um mál Guðmundar.
Högg Böðvars þykir ekki falla undir alvarlegt agabrot og er niðurstaða nefndarinnar að hann sæti ekki viðurlögum vegna málsins.
„Það er mat nefndarinnar, samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, að atvik það sem vitnað er til (...) uppfylli ekki áskilnað ákvæðis 6.3 reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál um alvarlegt agabrot,“ segir í úrskurðinum sem snertir Böðvar.
„Hefur aga- og úrskurðarnefnd því ákveðið að Böðvar Böðvarsson, leikmaður FH, skuli ekki sæta viðurlögum,“ segir þar enn fremur.