Innlent

Vill burt með rán­dýr, úr­elt og ó­þarfa stimpil­gjöld

Bjarki Sigurðsson skrifar
Vilhjálmur Árnason ritari Sjálfstæðisflokksins vill burt með stimpilgjöldin.
Vilhjálmur Árnason ritari Sjálfstæðisflokksins vill burt með stimpilgjöldin. Vísir/Vilhelm

Hluti þingflokks Sjálfstæðisflokksins vill afnema stimpilgjöld við kaup einstaklings á fasteign. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins segir gjöldin úrelt og óþarfa og er bjartsýnn á að það verði samþykkt. 

Þetta er í tíunda sinn sem frumvarpið er lagt fram. Síðast var það gert í fyrra en það hlaut ekki afgreiðslu. Þá voru fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins á bak við það. Sama fólkið reynir aftur í ár, með þrjá aðra þingmenn flokksins í sínu liði. Fyrsti flutningsmaður er aftur Vilhjálmur Árnason. Hann segir gjöldin úrelt og óþarfi.

„Þetta er bara mjög stór partur af þeirra ráðstöfunarfé að þurfa að borga þetta stimpilgjald. Sem við viljum meina að sé þá að hindra eðlileg viðskipti eða eðlilega þróun og hreyfingu á fasteignamarkaðnum,“ segir Vilhjálmur. 

Gjaldið er 0,8 prósent af fasteignaverði og er oftar en ekki ansi hátt. Af sjötíu milljón króna íbúð greiðast 560 þúsund krónur í stimpilgjald. Hann telur að í þetta tíunda skipti sé kominn tími til að frumvarpið sé samþykkt og er bjartsýnn á að ná því í gegn með auknum liðsauka úr flokknum.

„Það hefur kannski bara skort á áherslu til dæmis við kjarasamningsborðið á þetta atriði. Ég tel röðina vera komna að þessu atriði einmitt núna. Það er búið að gera margt annað til að aðstoða húsnæðiskaupendur og forgangsröðunin hefur greinilega verið annarsstaðar. Því miður höfum við þingmenn ekki fengið sæti við kjarasamningsborðið þó að það hafi hellingsáhrif á það sem við þurfum að gera inni á þinginu. Þannig ég vona að fólk sjái mikilvægi þessa núna og setji þetta í forgang,“ segir Vilhjálmur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×