Lögreglan á Spáni er búin að vera með málið í rannsókn frá því í fyrra og hefur kallað aðgerðina Bralina. Rannsóknin náði til fjölmargra héraða á Spáni. Eftir síðustu handtökur segir í frétt El Mundo að lögreglan sé nú búin að uppræta glæpahringinn sem skipulagði þjófnaðinn. Meðlimir glæpahópsins eiga yfir höfði sér ákæru fyrir fjársvik, peningaþvætti, skjalafals og aðild að skipulagðri glæpastarfsemi.
Notuðu ákveðna frasa
Á vef spænska miðilsins El Mundo kom fram í dag að auk þeirra fimm sem voru handtekin hafi tíu aðrir verið til rannsóknar vegna þjófnaðarins. Í tengslum við rannsóknina fór fram húsleit í fimm húsum auk þess sem lögregla lagði hald á farsíma, bankakort, tölvur og ýmis skjöl. Meðal skjalanna sem voru haldlögð voru dagbækur þar sem mátti finna ýmsa frasa sem svikahrapparnir notuðu á konurnar til að blekkja þær.
„Ást mín til þín er sönn. Tilfinningarnar koma frá hjarta mínu,“ segir í dagbókinni auk ýmissa annarra ástarjátninga og yfirlýsinga.
Í frétt El Mundo segir að lögreglan hafi hafið rannsókn sína eftir að kona í Granada á Spáni tilkynnti til lögreglu að hún hefði verið svikin um 175 þúsund evrur. Sú rannsókn leiddi svo til annars fórnarlambs i Vizcaya héraði. Þar kemur einnig fram að glæpamennirnir hafi haft samband við fórnarlömbin í gegnum aðdáendasíðu sem tileinkuð var Brad Pitt. Konurnar voru látnar halda að þær hafi verið í sambandi með leikaranum.
Konur í viðkvæmri stöðu
Eftir að svikarinn hafi stofnað til sambands með konunum, í nafni Brad Pitt, lagði hann svo til að þær myndu styrkja ýmis verkefni sem hann væri með í gangi. Þannig tókst honum að svíkja 175 þúsund af konunni í Granada, sem samsvarar um 26 milljónum íslenskra króna, og 150 þúsund evrur af konunni í Biscay. Það samsvarar um 22 milljónum íslenskra króna.
Svikahrapparnir lögðu áherslu á að finna konur sem væru í viðkvæmri stöðu annað hvort tilfinningalega eða konur sem ættu við andleg vandamál að stríða. Eftir að svikahrapparnir höfðu skipst á skilaboðum við konurnar, og talið þeim trú um að þær ættu nú í sambandi við Brad Pitt, voru þær fengnar til að millifæra.
Þá kemur einnig fram að lögreglan hafi komist að því að glæpahópurinn hafi þvegið peningana með því að stofna bankareikninga á nafni afrískra ríkisborgara.