Albert Brynjar Ingason, sérfræðingur Stúkunnar á Stöð 2 Sport og stjórnandi Gula spjaldsins, sagði í hlaðvarpinu í gær að Valsmenn hafi sett sig í samband við Rúnar um að taka við Hlíðarendafélaginu fyrir næstu leiktíð.
Guðmundur Benediktsson, stjórnandi Stúkunnar, sagði svipaða sögu í útsendingu Stöðvar 2 Sport frá leik Breiðabliks og ÍA í gærkvöld. Guðmundur kvaðst hafa rætt við Börk Edvardsson, formann knattspyrnudeildar Vals, vegna málsins.
„Hann neitaði því að það hefðu átt sér stað einhver samskipti þar á milli. Það væri ekki í plönunum,“ sagði Gummi Ben af samskiptum sínum við Börk.
Fótbolti.net hafði samband við Guðmund Torfason, formann knattspyrnudeildar Fram, vegna málsins. Guðmundur furðaði sig á orðrómunum.
„Það er enginn fótur fyrir þessu,“ hefur Fótbolti.net eftir Guðmundi. Jafnframt segir í frétt miðilsins að Guðmundur hafi rætt við bæði áðurnefndan Börk sem og Rúnar vegna málsins og allir séu þeir jafn undrandi á þessu öllu saman.
Srdjan Tufegdzic er þjálfari Vals en hann tók við af Arnari Grétarssyni á miðju sumri. Hann skrifaði þá undir þriggja ára samning við Val.
Valur gerði 2-2 jafntefli við Stjörnuna í gær þar sem liðið lenti 2-0 undir. Valsmenn sitja í 3. sæti Bestu deildarinnar, sem veitir keppnisrétt í Sambandsdeild Evrópu að ári.
Fram vann 2-0 sigur á botnliði Fylkis í fyrrakvöld og er efst í neðri hluta Bestu deildarinnar. Gengi Fram var fram úr vonum framan af sumri og stefndi lengi vel í að liðið myndi enda í efri hlutanum, en það gaf hressilega á bátinn á lokakafla hefðbundu deildarkeppninnar.