Fótbolti

„Þegar þeir mis­stíga sig þá misstígum við okkur líka“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Davíð Ingvarsson skoraði bæði mörk Blika í kvöld.
Davíð Ingvarsson skoraði bæði mörk Blika í kvöld. Vísir/Viktor Freyr

Davíð Ingvarsson skoraði bæði mörk Breiðabliks er liðið gerði 2-2 jafntefli gegn Val í 25. umferð Bestu-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Úrslitin þýða að Breiðablik og Víkingur eru enn jöfn að stigum á toppi deildarinnar.

„Það er bara drullusvekkjandi að gera jafntefli hérna. Mér fannst við vera miklu betri allan leikinn en fáum á okkur tvö skítamörk og það verður okkur að falli. Því miður,“ sagði Davíð í viðtali í leikslok.

Hann segir það þó ákveðinn létti að Víkingur hafi einnig gert jafntefli í dag og því séu Blikar enn með örlögin í sínum eigin höndum.

„Það er reyndar mjög gott. En það er einhvernveginn alltaf þannig að þegar þeir misstíga sig þá misstígum við okkur líka. Það er ekki alveg nógu gott og við verðum að vinna okkar leiki. Það er bara þannig.“

„Þetta er kannski ekkert veikleikamerki, en þetta er eitthvað sem við megum bæta.“

Þrátt fyrir að vera svekktur með úrslitin gat Davíð þó verið sáttur við sína frammistöðu.

„Loksins skorar maður. Ég er búinn að fá helvíti góð færi í síðustu tveimur leikjum þannig ég er bara drulluánægður að skora.“

Að lokum segir Davíð ekkert annað en sex stig af sex mögulegum í seinustu tveimur leikjum tímabilsins koma til greina.

„Við erum spenntir. Okkur hlakkar til að klára þessa tvo leiki og taka sex stig,“ sagði Davíð að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×