Innlent

Greiða at­kvæði um verk­fall í níu skólum fram á fimmtu­dag

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Magnús Þór Jónsson.
Magnús Þór Jónsson. vísir

Magnús Þór Jónsson formaður KÍ er þögull sem gröfin um nöfn þeirra skóla þar sem verkfall gæti hafist í lok mánaðar. Greidd verða atkvæði um verkfall í níu skólum og atkvæðagreiðslu lýkur á fimmtudag. 

Í tilkynningu frá KÍ í dag var greint frá atkvæðagreiðslunni í fjórum leikskólum, þremur grunnskólum og einum framhaldsskóla greiða atkvæði um verkföll. Í dag bættist tónlistarskóli við þennan hóp. 

Magnús Þór ræddi fyrirhuguð verkföll í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

„Við hjá Kennarasambandinu höfum verið að benda á stóra verkefnið. Stóra verkefnið er það að við sem samfélag horfum til fjárfestinga í skólastarfinu. Eflum fagmennsku í skólastarfi og treystum stöðugleikann í þeim sessi sem við viljum,“ segir Magnús Þór. 

Varðandi verkfallsaðgerðirnar segir Magnús að aðgerðirnar séu einungis innlegg í kjaraviðræðurnar, án þess að svara því um hvaða skóla ræði. 

„Leikreglurnar eru með þeim hætti að við þurfum að hafa góðan fyrirvara til að láta vita af slíkum aðgerðum. Nú höfum við þennan kosningafrest sem hefur verið kynntur. Í hádeginu á fimmtudaginn mun koma í ljós hvort þessir átta skólar, mögulega sá níundi, hafi ákveðið að fara í verkfall til að styðja við okkar málstað.“

Magnús Þór segir verkefnið vera að leiða deilur til lykta. 

„Við þurfum að þrýsta á umræðu um að við fjárfestum í kennurum og fyllum skólana af fagfólki. Þá verður sannarlega tími fyrir okkur, fulltrúa Kennarasambandsins, og fulltrúa opinberra launagreiðanda að leiða það til lykta áður en til aðgerða kemur sem verður einhvern tímann í lok mánaðarins.“

Hann segir um langtímaverkefni að ræða.

„Það samtal sem við viljum eiga á að snúast um að við eflum fagmennsku, treystum kerfið og fyllum skólana af fagfólki. Foreldrar eru svo sannarlega með okkur í liði, það höfum við fundið síðustu vikur,“ segir Magnús Þór að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×