Körfubolti

„Sóknin alls ekki klár hjá okkur“

Siggeir Ævarsson skrifar
Þorleifur Ólafsson er þjálfari Grindavíkur
Þorleifur Ólafsson er þjálfari Grindavíkur Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Grindavík vann torsóttan 67-61 sigur á Val í kvöld í Bónus-deild kvenna en leikurinn var jafn og spennandi allt fram á síðustu mínútu.

Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, tók undir orð blaðamanns að það hafi verið sannkallaður haustbragur yfir leik kvöldsins.

„Klárlega. Sóknin alls ekki klár hjá okkur. Maður er eitthvað að reyna öskra á þær varnarlega en áttar sig kannski ekki á því fyrr en eftir leikinn að við höldum þeim í 61 stigi, það er bara góð vörn. Svo eru það sóknarfráköstin, ég var ekki ánægður með þau í fyrri hálfleik. Þær tóku bara fjögur í seinni hálfleik [ellefu í fyrri. Innsk. blm.] sem er bara mjög gott á móti Val. Þær eru mjög góðar í sóknarfráköstum. Þetta var erfið fæðing en ég er virkilega sáttur með niðurstöðuna og leikinn heilt á litið.“

Alexis Morris lék sinn fyrsta leik fyrir Grindavík í kvöld og fór á kostum sóknarlega og ljóst að þarna hæfaleikaríkur leikmaður á ferð.

„Hún er það og við vissum það alveg. Hún er náttúrulega búin að vera á stóra sviðinu og góð í körfubolta. En svo bara þetta gamla góða. Þær þurfa að aðlagast henni og hún þeim. Hún er nýkomin og ekki búin að vera á mörgum æfingum en við fyrstu sýn, bara virkilega góð og mun klárlega hjálpa okkur í vetur.“

Þrátt fyrir gott framlag frá Morris og öðrum bakvörðum liðsins er ljóst að Grindavík á töluvert inni frá stóru leikmönnum sínum, en þær Isabella Ósk Sigurðardóttir og Sofie Tryggedsson skoruðu samanlagt fimm stig.

„Engin spurning, sóknarlega. Við þurfum að finna þetta jafnvægi, þetta gamla góða„inside-outside“, og reyna að koma þessum stelpum kannski í stöður þar sem þeim líður vel. Við erum bara að vinna í því og þetta mun bara verða betra.“

Þrátt fyrir að áferðin hafi ekki verið falleg á sigri kvöldsins er Þorleifur bjartsýnn á framhaldið.

„Ég er bara virkilega ánægður með liðið mitt í heild sinni. Þessar stelpur sem komu inn og hvernig þetta lítur út. Það er jákvæður og öðruvísi bragur á þessu heldur en í fyrra. Ég er bara rosalega bjartsýnn fyrir framhaldið. Þær kunna körfubolta og eru skemmtilegar stelpur. Þetta lítur bara vel út hjá okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×