Páll undirbýr nú að kæra niðurfellinguna til ríkissaksóknara. Fyrrverandi eiginkona Páls hafði réttarstöðu sakbornings í málinu auk sex blaðamanna.
Þóra Arnórsdóttir fyrrverandi ritstjóri Kveiks, Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður á Heimildinni og Flóki Ásgeirsson lögmaður Blaðamannfélagsins í málinu koma í Pallborðið á Vísi klukkan tvö til að fara yfir málið.
Málið má rekja aftur til umfjöllunar Kveiks um meintar mútugreiðslur Samherja í Namibíu. Í kjölfarið var fjallað um svokallaða „skæruliðadeild“ Samherja á Stundinni og Kjarnanum, nú Heimildinni, og störf hennar.
Skæruliðadeildin var skipuð nokkrum starfsmönnum Samherja, þar á meðal Örnu Bryndísi McClure yfirlögfræðingi Samherja, Þorbirni Þórðarsyni almannatengslaráðgjafa, Páli Steingrímssyni þáverandi skipstjóra hjá Samherja og Jóni Óttari Ólafssyni rágjafa og fyrrverandi rannsóknarlögreglumanni.
Fram kom í umfjöllun um samskiptin þeirra á milli að þau hafi meðal annars reynt að hafa áhrif á niðurstöður formannskjörs í Blaðamannafélagi Íslands og prófkjör fyrir Alþingiskosningar árið 2021 hjá Sjálfstæðisflokknum í Norðausturkjördæmi.
Strax og Samherjamenn voru upplýstir um fyrirhugaða umfjöllun Kjarnans og Stundarinnar kærði Páll Steingrímsson málið til lögreglu þar sem hann fullyrti meðal annars að síma sínum hefði verið stolið þegar hann lá fárveikur á sjúkrahúsinu á Akureyri í maímánuði 2021.
Pallborðið verður í beinni útsendingu á Vísi og Stöð 2 Vísi klukkan 14.