Rósa hættir sem bæjarstjóri um áramótin þegar Valdimar Víðisson oddviti Framsóknarflokksins í Hafnafirði tekur við sem bæjarstjóri í samræmi við samkomulag sem gert var í kjölfar síðustu sveitarstjórnarkosninga.
„Eftir að hafa leitt Sjálfstæðisflokkinn í Hafnarfirði í rúm 10 ár og átt þannig þátt í því að koma flokknum í meirihluta í bæjarstjórn eftir langt hlé, vil ég leggja mitt af mörkum til að tryggja Sjálfstæðisflokknum glæsilegan árangur í komandi kosningum,“ segir Rósa.
Hún segist telja að reynsla hennar sem bæjarfulltrúi í 18 ár, formaður bæjarráðs og bæjarstjóri í rúm 6 ár, muni nýtast vel í landsmálunum.
„Mín störf sýna að ég hef fylgt grundvallarhugsjónum sjálfstæðisstefnunnar af einurð sem birtist meðal annars í ábyrgri fjármálastjórn, frelsi til athafna, skattalækkunum, skilningi á því að velferð sé ekki tryggð nema með öflugu atvinnulífi og virðingu fyrir skattfé almennings.“
Slegist um sætin í Suðvestur
Keppst verður um sætin á lista flokksins í kjördæminu. Þegar hafa þau Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir og Jón Gunnarsson gefið út að þau sækist eftir 2. sæti og er gert ráð fyrir að Bjarni Benediktsson muni leiða listann í kjördæminu eins og hann hefur gert síðustu ár.
Óli Björn Kárason ætlar ekki fram í þetta sinn en hann var í 4. sæti á lista í Suðvesturkjördæmi í síðustu kosningum.