433.is segir frá tíðindunum og þar tekið fram að um sé að ræða eina stærstu sölu í sögu íslensks kvennafótbolta.
Fanney Inga er fædd árið 2005 og tók við markvarðarstöðunni hjá Val síðasta sumar. Í kjölfarið tryggði hún sér byrjunarliðssæti í landsliði Íslands.
Fanney er á leið með íslenska landsliðinu til Bandaríkjanna þar sem Ísland mætir bandaríska landsliðinu í tveimur æfingaleikjum sem er hluti af undirbúningi fyrir EM næsta sumar.
Fanney er sögð muni semja við Häcken í kjölfarið. Häcken var í toppbaráttunni í sænsku deildinni í sumar en Rosengard rúllaði yfir deildina og hefur þegar tryggt sér sænska meistaratitilinn. Häcken er í öðru sæti með 55 stig, 14 frá toppnum, þegar þrjár umferðir eru eftir. Allt bendir til þess að liðið tryggi sér sæti í Evrópukeppni að ári.
Fótbolti.net greinir frá því að Tinna Brá Magnúsdóttir muni taka stöðu Fanneyjar í marki Vals. Tinna Brá varði mark Fylkis í sumar en Árbæingar féllu úr Bestu deildinni.