Þetta kemur fram í svari frá borginni um verkfall leikskólakennara á leikskólanum Drafnarsteini sem hefur verið boðað, ótímabundið, frá og með næsta þriðjudegi, 29. október.
Í svari borgarinnar kemur einnig fram að leikskólagjöld verða felld niður þá daga sem verkfallið stendur yfir.
„Ekki verður boðið upp á önnur vistunarúrræði enda ekki heimilt að ganga í störf leikskólakennara,“ segir í svari borgarinnar.
Boðuð hafa verið verkföll í fjórum leikskólum en aðeins einn þeirra er í Reykjavík, Drafnarsteinn í Vesturbæ Reykjavíkur. Samkvæmt svörum borgarinnar vinna 38 starfmenn í leikskólanum í um 25 stöðugildum. Af þeim fara 15 í verkfall og verða því 23 í vinnu. Ekki liggur fyrir í svari borgarinnar hvort þetta fólk sé í fullri vinnu eða ekki.
„Leikskólastjóri sendi upplýsingar til foreldra þegar ljóst var hvaða leikskóli í Reykjavík tæki þátt í verkfallinu. Upplýsingar verða sendar aftur í vikunni og verða foreldrar upplýstir eftir því sem við á.“
Ótímabundin og tímabundin verkföll
Aðrir leikskólar sem hafa verið boðið verkföll í eru Leikskóli Seltjarnarness, leikskólinn Holt í Reykjanesbæ og leikskólinn Ársölum á Sauðárkróki.
Auk þess hafa verið boðið tímabundin verkföll í fjórum grunnskólum, einum tónlistarskóla og tveimur menntaskólum. Verkfallsboðun kennara var dæmd lögleg í Félagsdómi fyrr í dag.