Í kvöld er komið að úrslitastundu, þar sem Víkingar og Blikar eigast við í úrslitaleik í Víkinni. Íslandsmeistaratitilinn sjálfur er undir.
„Mér líður mjög vel. Það er búinn að vera ofboðslega góður andi og stemmning í liðinu eftir Stjörnuleikinn. Í sumar höfum við verið mjög góðir að útiloka allt utanaðkomandi, allar breytur sem við höfum ekki stjórn á. Við höfum ekkert pælt í úrslitum annarra leikja,,“ sagði Halldór í samtali við Val Pál Eiríksson eftir blaðamannafund í Víkingsheimilinu á föstudaginn.
„Síðan spilaðist síðasti laugardagur þannig, og maður áttar sig kannski betur á því eftir leikinn, að það var heilmikil pressa á liðinu. Þegar menn voru búnir að yfirstíga það voru allir hlekkir farnir af og ofboðsleg gleði, léttleiki og tilhlökkun í liðinu og hjá mér.“
Reynslan hjálpar
Eins og Halldór sagði spiluðu Blikar síðast á laugardaginn um síðustu helgi. Hann segir að biðin eftir leiknum stóra hafi ekki verið óbærileg.
„Nei, nei. Við höfum tæklað þessa viku eins og hverja aðra og æft samkvæmt plani. Auðvitað vitum við alveg hvað er í húfi en ég er með mjög þroskað og reynslumikið lið. Menn hafa kannski frekar leyft sér að njóta vikunnar heldur en að stressa sig á biðinni,“ sagði Halldór.
Á meðan Blikar hafa ekki spilað í rúma viku spiluðu Víkingar Evrópuleik á fimmtudaginn. Halldór telur að það muni ekki hafi áhrif þegar út í leikinn í kvöld verður komið.
„Ég held ekki. Þegar það er komið í svona leik, síðasti leikur á tímabilinu og langt í næsta Evrópuleik hjá þeim, þá er þetta bara dagsformið og adrenalín sem keyrir menn áfram. Ég held að enginn muni pæla í þreytu á sunnudaginn,“ sagði Halldór.
Eru í forréttindastöðu
En hvernig stillir maður spennustigið rétt fyrir leik sem þennan?
„Það er bara að vera trúr sínum gildum, trúir því sem við höfum lagt fram í klefanum í allt sumar. Að fara ekki út fyrir þann ramma sem við höfum unnið innan. Þegar hlutirnir eru í þínum höndum og þú ert með örlögin í þínum eigin höndum ertu í forréttindastöðu. Það hefur verið staðan í langan tíma og er enn á sunnudaginn. Við þurfum bara að umfaðma það og fara með það inn í leikinn,“ sagði Halldór.
Grunnt hefur verið á því góða milli Víkings og Breiðabliks undanfarin ár. Halldór á von á tilfinningarnar verði þandar í leiknum í kvöld.
„Menn eru auðvitað mannlegir og miklar tilfinningar. Og bara þessi staða að þú getir beislað tilfinningarnar og nýtt þér þær í hag, sem orku og drifkraft. En auðvitað er mikið undir og þetta verður vafalítið hörkuleikur,“ sagði Halldór.
En við hvernig leik býst þjálfarinn?
„Ég er eiginlega bara feginn að okkur dugir ekki jafntefli. Það hefði verið algjörlega úr karakter miðað við hvernig tímabilið hefur spilast og hefði ekki hentað okkur. Það segir sig sjálft, auðvitað þurfum við að vinna leikinn og munum nálgast hann þannig,“ sagði Halldór að lokum.
Horfa má á viðtalið við Halldór í spilaranum hér fyrir ofan.
Leikur Víkings og Breiðabliks fer fram á Víkingsvelli klukkan 18:30 í dag og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 17:45. Eftir leikinn verður Besta deild karla svo gerð upp í lokaþætti Stúkunnar.