Skoðun

Ramm­ís­lenskt

Aðalsteinn Leifsson skrifar

Hann vaknar við vekjaraklukkuna, ómissandi tæki sem kom fyrst fram á sjónarsviðið í Frakklandi undir lok 19. aldar, sveiflar af sér dúnsænginni, sem á rætur í Kína um 3 þúsund f.kr. og fékk almenna útbreiðslu í Noregi fyrir um þúsund árum, og stígur upp úr rúminu, sem er framleitt í Svíþjóð en kom fyrst fram í S-Afríku fyrir um 77 þúsund árum og var algeng í núverandi mynd hjá Forn-Egyptum.

Eftir að hann hefur smellt á sig inniskóm, sem voru fyrst framleiddir í Kína fyrir um 4.700 árum, og farið í náttfötin, sem rekja ættir sínar til Ottóman-heimsveldisins á 12. öld, fer hann inn í eldhús. Þar hellir hann upp á kaffi, sem geitasmalinn Kaldi lagaði fyrstur manna í Eþíópíu 800 e.kr., en fyrir konuna útbýr hann te, sem deilt er um hvort eigi rætur í Kína, Tævan, Japan, Sri Lanka eða Indlandi en hann keypti nú bara í Krónunni (vörumerkið First Price, flutt inn á fríverslunarsamningi frá Noregi), með ögn af sykri sem var fyrst unnin í Nýju-Gíneu.

Hann smyr sér brauð, sem byggir á tækni sem líklega kom fyrst fram á svæðinu umhverfis Jórdaníu um 10 þúsund árum f.kr., með rammíslensku smjöri, sem á rætur til Afríku 8 þúsund árum f.kr. og var notað sem andlitskrem í Egyptalandi til forna, og setur á það ost, sem er framleiddur með aðferð sem kom fram Mið-Austurlöndum og voru þróaðar af Rómverjum, og sultu, sem Grikkir settu fyrstir á brauð. Stundum fær hann sér ekta amerískt hnetusmjör, sem er uppfinning Inka í Suður-Ameríku.

Eftir morgunmat flýtir hann sér að bursta tennurnar með tannbursta, sem kom fyrst fram í Kína á 8. öld, og tannkremi sem er útgáfa af efni sem Egyptar notuðu til sömu hluta fyrir um 7 þúsund árum, smellir sér í jakkafötin, sem rekja má til breska smekkmannsins Beau Brummel á 18. öld og setur á sig bindi, sem króatískir málaliðar gerðu svo fræg í Frakklandi árið 1636 að Louis XIII varð að fá sér eitt.

Hann fer út í japanskan bíl, sem byggir á uppfinningu sem Carl Benz fékk fyrstur einkaleyfi fyrir í Þýskalandi árið 1886 og ekur í vinnuna þar sem hann skrifar á blað, sem á rætur til Forn-Egypta en var fyrst framleitt í Kína um árið 100, pælingar um árekstra vegna blöndunar menningarheima.

Höfundur er fyrrverandi ríkissáttasemjari og er í 3. sæti á lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×