Þetta kemur fram í pósti frá LÍ til félagsmanna sem fréttastofa hefur undir höndunum.
Þar segir að svar ríkisins um að ekki væri rétt staðið að umræddri verkfallsboðun hafi komið LÍ í opna skjöldu. Nákvæmlega eins hafi verið staðið að verkfallsboðun nú og fyrir tíu árum síðan í síðasta verkfalli.
Athugasemdir ríkisins séu tvær, annars vegar að kosið hafi verið um verkfallsboðunina með röngum hætti og hins vegar að verkfallsboðunin taki ekki til allra lækna hjá þeim vinnuveitendum sem verkfall beinist gegn. Læknafélagið og lögfræðilegir ráðgjafar sem félagið hefur leitað til séu langt frá því að vera sammála þessari afstöðu.
Niðurstaða Félagsdóms gæti seinkað verkföllum
Læknafélagið segir boðun verkfallsins hafa verið lögmæta og telur dómafordæmi Félagsdóms, um að greiða eigi atkvæði á hverjum vinnustað sem verkfallið eigi að ná til, hafa vafasamt fordæmisgildi. Félagið fellst hins vegar á að athugasemd ríkisins um að verkfall verði að ná til allra eininga Landspítala á sömu dögum eigi sér stoð í lögum.
LÍ hafi tvo kosti: láta ríkið fara í málaferli fyrir Félagsdómi um lögmæti boðaðs verkfalls eða boða til nýs verkfalls með þeim hætti sem ríkið telji löglegan.
Verði niðurstaða Félagsdóms andsnúin LÍ segist félagið vera búið að missa af því að fara í verkfall fyrr en einhvern tímann í desember. Markmið ríkisins virðist vera einmitt það, að tefja boðaðar verkfallsaðgerðir lækna.
Niðurstaða stjórnar LÍ er að velja seinni kostinn: láta hvern vinnustað lækna kjósa um verkföllin og að láta verkföllin ná til Landspítalans alls þá daga sem verkföll verða á Landspítala. Með þeirri leið er unnt að boða nýtt verkfall lækna frá 25. nóvember næstkomandi.
Vonir standa til að ný atkvæðagreiðsla um verkfall lækna hefjist síðdegis mánudaginn 4. nóvember næstkomandi.
Ekki náðist í Steinunni Þórðardóttur, formann LÍ, við skrif fréttarinnar.