Enski boltinn

Sjáðu klúðrið sem stjóri Villa kallaði „stærstu mis­tökin“ sem hann hefur séð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Unai Emery, knattspyrnustjóri Aston Villa, með Tyrone Mings í leiknum í Meistaradeildinni í gær.
Unai Emery, knattspyrnustjóri Aston Villa, með Tyrone Mings í leiknum í Meistaradeildinni í gær. Getty/Aston Villa

Aston Villa tapaði sínum fyrstu stigum í Meistaradeildinni í fótbolta í vetur þegar liðið lá 1-0 á móti belgíska félaginu Club Brugge í gærkvöldi.

Úrslitin réðust á vítaspyrnudómi en kringumstæðurnar verða þó varla furðulegri.

Unai Emery, knattspyrnustjóri Aston Villa, var líka mjög sár út í leikmann sinn Tyrone Mings eftir leikinn.

Mings ruglaðist algjörlega í ríminu eftir stutta markspyrnu markvarðarins Emiliano Martínez. Hann tók boltann upp og dómarinn gat ekkert annað en dæmt vítaspyrnu.

Villa hafði unnið þrjá fyrstu leiki sína í keppninni og það án þess að fá á sig mark.

„Þetta eru algjörlega furðuleg mistök. Þetta eru líka stærstu mistökin sem ég hef orðið vitni af á mínum ferli,“ sagði Unai Emery eftir leikinn.

„Svona hefur aðeins gerst einu sinni á minni ævi og það var í dag,“ sagði Emery.

Þýski dómarinn gaf Mings þó ekki gult spjald fyrir að taka boltann upp með höndum en það hefði þýtt annað gula spjaldið hans í leiknum og þar með rautt. Mings slapp því við að gera illt enn verra.

Atvikið gerðist á 52. mínútu leiksins og Hans Vanaken skoraði úr vítinu. Það reyndist vera eina mark leiksins.

Hér fyrir neðan má sjá þetta ótrúlega atvik.

Klippa: Glórulaus Mings kostaði Aston Villa



Fleiri fréttir

Sjá meira


×