Þær Marta Maier og Sóley Anna Myer eru báðar í 10. bekk í Laugalækjarskóla. Kennarar við skólann lögðu niður störf fyrir rúmu hálfum mánuði og því fer engin kennsla fram í skólanum. Þær segja að fyrst um sinn hafi verið fínt að komast í frí. Núna finnst þeim hins vegar komið gott af því að vera heima og vilja komast aftur í skólann.
Þær segja rútínuleysið sem fylgir því að fara ekki skólann hafa áhrif bæði á svefn þeirra og mataræði.
„Ég er vanalega að vakna um eitt tvö kannski af því við erum líka að fara að sofa alveg frekar seint. Af því það skiptir engu máli af því við erum ekki að vakna daginn eftir. Þannig við erum að fara að sofa um svona þrjú leytið,“ segir Marta.
Þá séu þær vanar að fá heitan graut í skólanum, hádegismat á hverjum degi og fisk tvisvar í viku.
„Maður er ekkert að nenna að búa eitthvað til sjálfur þannig maður er að borða ósköp lítið og óhollt,“ segir Sóley.
Þær æfa báðar körfubolta og segja mikilvægt að komast á æfingar til að brjóta upp daginn.
„Ef ég væri ekki á æfingum þá væri ég bara heima í allan dag að gera ekki neitt,“ segir Marta.
Báðar segjast hafa lítið náð að læra heima á meðan á verkfallinu hefur staðið.
„Ég er ekkert búin að læra,“ segir Sóley
Marta segir flókið að læra sjálf heima.
„Ég er alveg eitthvað búin að reyna að kíkja á áætlun. Ég veit alveg um marga sem eru búnir að reyna að kíkja til dæmis á stærðfræðiáætlun eða eitthvað af því það er eina fagið sem við erum með áætlun í sem við getum farið eftir en það er bara svo svakalega erfitt að gera þetta heima og svo eru bara foreldrar í vinnunni og geta ekki hjálpað.“
Verkfallsaðgerðir kennara hófust 29. október síðastliðinn í níu leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólum. Enginn formlegur samningafundur verið boðaðar í kjaradeila þeirra og ríkis og sveitarfélaga í um tvær vikur.
Í næstu viku leggja kennarar við Menntaskólann í Reykjavík einnig niður störf og viku síður kennarar í þremur grunnskólum til viðbótar. Verkföll leikskólanna eru ótímabundin en önnur tímabundin.
Þær Sóley og Marta sjá fram á að komast aftur í skólann eftir rúma viku þegar aðgerðum líkur í þeirra skóla. Báðar segjast sakna margs úr skólanum.
„Kennaranna bara að tala við þá og bara krakkanna,“ segir Sóley.
Þá segir Marta að þær eigi von á að það verði mikið að gera þegar þær mæta aftur í skólann.
„Ég held að það verði alveg gott að komast aftur í rútínu en svo verður maður bara stressaður af því þetta verður bara svo mikill lærdómur sem við þurfum að ná upp úr að þetta verður bara svakalegt.“