Þetta er meðal þess sem kemur fram í tilkynningu frá Úlfari Lúðvíkssyni, lögreglustjóra á Suðurnesjum.
„Á svæði sunnan Voga og Reykjanesbrautar hefur verið leitað að sprengjum í gegnum tíðina. Það svæði er talið mengað af virkum sem óvirkum sprengjum sem geta valdið manntjóni ef þær springa en hiti eða hreyfingar geta haft þar áhrif. Staðsetning innan 300 metra frá miðpunkti stórrar sprengju getur valdið manntjóni,“ segir í tilkynningunni.
Þar kemur fram að um sé að ræða fallbyssukúlur, sprengjuvörpur (e. mortar) og æfingasprengjur. Á myndinni hér að neðan má sjá áætlað umfang svæðisins, en það liggur þó ekki nákvæmlega fyrir.
„Inni á þessu svæði þurfa viðbragðsaðilar sem aðrir að halda sig við merkta gönguslóða. Vakin er athygli á þessari hættu með skiltum sem staðið hafa við upphaf gönguleiða í áratugi. Það þekkja heimamenn og útivistamenn sem gengið hafa um svæðið. Nauðsynlegt er að vekja athygli á þessum staðreyndum nú þegar erlendir ferðamenn streyma inn á Reykjanesið til að berja gosið augum.“
Lögreglustjóri beinir þeim tilmælum til ferðaþjónustuaðila og þeirra sem veita erlendum ferðamönnum upplýsingar að koma þessum staðreyndum á framfæri við ferðamenn. Því sé beint til þeirra að halda sig við merktar gönguleiðir og slóða.
„Gosstöðvarnar eru ekki aðgengilegar fyrir ferðamenn við núverandi aðstæður. Þá gætir mengunar frá gosi og gróðureldum. Loftgæði nær gosstöðvum eru slæm. Skipulögð bílastæði eru ekki fyrir hendi né útsýnisaðstaða. Ökumenn leggi ekki bílum á og við Reykjanesbraut.“
