Rétt fyrir klukkan sjö í gærkvöldi birtust tvær tilkynningar á vef Kennarasambands Íslands. Sú fyrri fjallaði um boðun verkfalla í tíu leikskólum til viðbótar frá 10. desember. Verkfallsboðunin var samþykkt með nær öllum greiddum atkvæðum í leikskólunum tíu sem eru víðs vegar á landinu. Þeir eru:
Hulduheimar á Akureyri
Höfðaberg í Mosfellsbæ
Lundaból í Garðabæ
Lyngheimar í Reykjavík
Lyngholt í Reyðarfirði
Óskaland í Hveragerði
Rauðhóll í Reykjavík
Stakkaborg í Reykjavík
Teigasel á Akranesi
Leikskóli Snæfellsbæjar
Sú seinni sneri að aflýsingu verkfalla í leikskólunum fjórum sem hófu verkfallsaðgerðir í lok október. Krafa KÍ er sú að sveitarfélögin skuldbindi sig til að greiða laun starfsmannanna sem voru í verkfalli síðustu fjórar vikur.
Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir útfærslu KÍ dapurlega.
„Í stað þess að einbeita sér að því að ná samningum fyrir sitt fólk, þá er það ljóst í okkar huga að með þessari framgöngu er KÍ að sýna dýrmætum rétti launafólks til að leggja niður störf til að ná fram kröfum sínum, alvarlega lítilsvirðingu,“ segir Inga Rún.
Það að óska eftir því að sveitarfélögin greiði laun verkfallsstarfsmanna brjóti gegn rétti kennara. Sambandið fundar um tillöguna í dag.
„Við munum skoða þetta mál í dag áfram. Við eigum fund hjá Ríkissáttasemjara klukkan 12 og þar munu við halda áfram að ræða saman. Við munum líka skoða þetta mál í okkar hópi og svara því,“ segir Inga Rún.