Virknin er nú eingöngu bundin við nyrsta gíginn sem er beint austur af Stóra-Skógfelli. Megnið af hrauninu frá honum rennur til austurs í átt að Fagradalsfjalli.
Í tilkynningu segir að ekki sé hægt að útiloka að enn séu hreyfingar undir storknuðu yfirborði í hraunbreiðunni sem fór til vesturs í átt að Svartsengi þrátt fyrir að engar sjáanlegar hreyfingar hafi sést á þeim hluta hraunbreiðunnar í nótt.
Þá segir að samhliða minni gosvirkni hafi dregið úr sigi umhverfis Svartsengi. Ekki sé þó hægt að fullyrða að landris sé hafið að nýju þrátt fyrir að síðustu mælipunktar á GNSS-mælum sýni breytingar í þá átt.
„Þar sem breytingar milli daga eru það litlar er ekki hægt að draga ályktanir af einstaka punktum, heldur þarf að skoða breytingar yfir nokkurra daga tímabil. Í síðustu tveim gosum dró hægt úr sigi í rúma viku áður en landris varð mælanlegt að nýju. Það er því frekar líklegt að það þurfi allt að viku af viðbótarmælingum áður en hægt verður að meta hvort áframhald verði á landrisi og þar með kvikusöfnun undir Svartsengi,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.