Damir staðfesti þetta við mbl.is í dag en lengi hefur legið í loftinu að miðvörðurinn væri á leiðinni til Asíu. Raunar tilkynnti DPMM um væntanlega komu hans í ágúst, í frétt á vef sínum, en einhver óvissa hefur þó ríkt um hvort að af félagaskiptum hans yrði, sem nú hefur verið eytt.
Damir á eitt ár eftir af samningi sínum við Breiðablik en mun hafa komist að samkomulagi við félagið um að fara til Asíu. Hann gæti svo snúið aftur eftir að tímabilinu í Singapúr lýkur í maí, og spilað með Blikum á nýjan leik frá og með opnun félagaskiptagluggans í júlí.
Níu lið leika í úrvalsdeildinni í Singapúr en eitt þeirra, DPMM, er staðsett utan eyríkisins, í Brúnei sem er 460.000 manna ríki.
Eftir 3-2 sigur gegn Albirex Niigata á mánudaginn er DPMM í 6. sæti singapúrsku deildarinnar með 21 stig eftir 18 leiki, nú þegar komið er vetrarfrí hjá liðinu fram til 13. janúar.
Skotinn Jamie McAllister stýrir DPMM og bætist Damir í hóp með nokkrum erlendum leikmönnum sem koma frá Norður-Makedóníu, Ástralíu, Brasilíu, Portúgal og Afganistan.