Átta frambjóðendur voru strikaðir út yfir hundrað sinnum í nýliðnum kosningum. Langefstur var Dagur B. Eggertsson með yfir fjórtán hundruð útstrikanir. Næstir voru Þórður Snær, Jakob Frímann, Jón Gnarr og Guðlaugur Þór en þeir buðu allir fram í Reykjavík hver fyrir sinn flokkinn. Halla Hrund úr Framsókn og Karl Gauti í Miðflokki, bæði í Suðurkjördæmi, komu þar á eftir og loks Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar í Reykjavík. Yfirkjörstjórn í Suðvesturkjördæmi hefur hafnað að birtingu útstrikana.

Til að færast niður um sæti þurfa útstrikanir að ná ákveðinni prósentu sem sjá má á þessari töflu. Því fleiri þingsæti sem listinn fær, því lægra þarf hlutfall útstrikana að vera til að hafa áhrif.
Í tilviki Dags var hann annar þingmaður á lista með fjóra kjörna menn og því þurfti tólf og hálft prósent. Þegar búið var að reikna inn útstrikanir mannsins fyrir neðan á lista, samkvæmt flókinni reiknireglu, var Dagur fimm útstrikunum yfir markinu og færist því niður í þriðja sætið.

Dagur segist taka fjölda útstrikana af æðruleysi.
„Ég lít þannig á að ég þurfi að vinna það vel að ég geri alla kjósendur Samfylkingarinnar stolta af því að hafa kosið flokkinn. Sérstaklega fólk í Reykjavík að hafa stutt mig. Ekki bara þá sem greiddu okkur atkvæði heldur líka þá sem merktu við mig á listanum. Þannig það er bara verkefni núna, að standa sig vel á Alþingi,“ segir Dagur.
Að beiðni kjörstjórnar Suðvesturkjördæmis hefur úthlutun á þingsætum verið frestað. Fyrir liggur að Framsóknarmenn hafa óskað eftir endurtalningu í kjördæminu. Fréttastofa hefur ekki náð sambandi við kjörstjórn Suðvesturkjördæmis í dag en verði talið upp á nýtt gæti verið að jöfnunarmannahringekja fari í gang og er þá ekki víst að Dagur færist niður um sæti eftir allt saman.