Lakers kom sér aftur á réttan kjöl með sigri á Portland í nótt en hafði fyrir þann leik tapað þremur leikjum í röð og hefur í heildina unnið þrettán leiki en tapað ellefu á tímabilinu í NBA deildinni og er sem stendur í áttunda sæti vesturdeildarinnar.
JJ Redick, þjálfari Lakers, vakti athygli í viðtali sem hann fór eftir þungt tap gegn Miami Heat þann 5. desember og gagnrýndi samstöðu sinna manna. Þeir væru ekki í þessum slag saman og sköpuðust umræður um það í settinu í Lögmáli leiksins og þá einna helst í tengslum við stjörnur liðsins, Lebron James og Anthony Davis.
„Það vissu allir fyrir tímabilið að Lebron er að fara hvíla sig, bara að fara stefna á úrslitakeppnina,“ sagði Leifur Steinn Árnason einn af sérfræðingum Lögmálsins um Lakers. „Þegar að hann vill getur Lebron verið frábær varnarmaður en hann er bara að hvíla sig í vörninni. Síðan þegar að Anthony Davis er ekki 100% varnarlega, eins og hann byrjaði fyrstu vikurnar, það vantar eitthvað. Lebron er eiginlega með boltann allan tímann í sókninni. Lebron og Davis taka eiginlega öll skotin. Maður sér það bara á aukaleikurunum í þessu liði að mórallinn hjá þeim er að fara svolítið niður.
Tómas Steindórsson segir ekkert nýtt undir sólinni hjá liðinu frá Los Angeles. „Þetta er sama sagan með Lakers núna fimmta árið í röð. Síðan að þeir tóku Covid titilinn. Þetta er alltaf bara Lebron og Anthony Davis. Ekkert annað.“
„Reddick verður þá að taka smá ábyrgð á því,“ svaraði Leifur. „Það hlýtur að vera svolítið á honum að virkja hina leikmennina. Erum við ekki sammála um það? Hann er bara þarna að kenna leikmönnunum um allt. Bara allt leikmönnunum að kenna.
Heiðar Snær Magnússon sem einnig var í settinu furðaði sig á viðhorfi þjálfarans.
„Mér leið bara eins og þetta viðtal væri við mann sem væri að falla úr deild. „Ég hef bara sjaldan séð jafn neikvæðan og svartsýnan mann.“
Þetta og annað í nýjasta þættinum í Lögmáli leiksins má sjá á Stöð 2 Sport 2 klukkan átta í kvöld