Frá þessu segir í tilkynningu lögreglunnar þar sem segir frá verkefnum gærkvöldsins og næturinnar. Fram kemur að árásarmaður hafi verið handtekinn skammt frá vettvangi og sé hann nú vistaður í þágu rannsóknar málsins. Ekki er tekið fram hvar árásin átti sér stað en málið var skráð á svæði lögreglustöðvar 1 sem nær yfir miðborgina, Vesturbæ og Austurbæ.
Í tilkynningunni segir einnig frá því að tilkynnt hafi verið um þjófnað í tveimur verslunum í umdæminu og hafi málin í báðum tilfellum verið leyst á vettvangi.
Þá var ökumaður stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og var hann látinn laus eftir hefðbundið ferli.
Um klukkan fimm í morgun gistu tveir fangageymslu lögreglu, en alls voru bókuð 56 mál í kerfum lögreglu milli klukkan 17 í gær og fimm í morgun.