„Á fundinum verður kynnt stefnuyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar og greint frá skipan ráðherra,“ segir í tilkynningu.
Þá segir að skrifstofa forseta Íslands veiti upplýsingar um ríkisráðsfundi. „Gert er ráð fyrir að lyklaskipti ráðherra fari fram á sunnudag.“
Samkvæmt heimildum Vísis verður Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, forsætisráðherra í þessari ríkisstjórn, sem hefur þegar verið kennd við valkyrjur.
Þá mun Viðreisn fá utanríkisráðuneytið og fjármálaráðuneytið, og Flokkur fólksins félagsmálaráðuneytið.
Hvað er Hafnarborg?
Hafnarborg er við Strandgötu 34 í Hafnarfirði. Um er að ræða menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar sem var stofnuð árið 1983. Þar er einnig aðsetur listaverkasafns Hafnarfjarðarbæjar.
Á síðu safnsins segir að húsið hafi upphaflega verið hannað af Guðjóni Samúelssyni, arkitekt, fyrir Sören Kampmann lyfsala sem bjó í húsinu og rak apótek frá árinu 1921. Sverrir Magnússon tók síðan við húsinu og rekstrinum árið 1947. Það voru hjónin Sverrir og lyfjafræðingurinn Ingibjörg Sigurjónsdóttir sem gáfu Hafnarfjarðarbæ húsið og kváðu á um að þar skyldi starfrækt menningarstofnun.
Hafnarborg var formlega vígð árið 1988, en þá var búið að reisa viðbyggingu sem var hönnuð af Ingimar H. Ingimarssyni, arkitekt.

Greint var frá því í gær að samkvæmt þjóðarpúlsi Gallups væri umrætt ríkisstjórnarsamstarf Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins það sem langflestir svarendur hefðu áhuga á að sjá.
Þá sögðust flestir sáttir við niðurstöður alþingiskosninganna.