Innlent

Asískir ferða­menn virðist með­vitaðir þátt­tak­endur í bókunarsvindli

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Jóhannes Þór Skúlason segir tjón vegna bókunarsvindla hlaupa á mörgum milljónum króna. Sameiginleg einkenni er að finna í ólíkum málum, flestir svindlaranna koma frá Asíumarkaði og eru í viðskiptum við sama færsluhirði.
Jóhannes Þór Skúlason segir tjón vegna bókunarsvindla hlaupa á mörgum milljónum króna. Sameiginleg einkenni er að finna í ólíkum málum, flestir svindlaranna koma frá Asíumarkaði og eru í viðskiptum við sama færsluhirði. Vísir/Arnar

Jóhannes Þór Skúlason segir bókunarsvindl sem tröllríða íslenskum ferðamannaiðnaði um þessar mundir flest vera frá asískum ferðamönnum. Ferðamennirnir fari í ferðir og láta svo eins og þeir hafi ekk veitt heimild fyrir greiðslunni sem er þá afturkölluð.

Fréttastofa Rúv fjallaði í gær um skipulögð bókunarsvindl í íslenskri ferðaþjónustu. Bókunarsvindlið virkar þannig að ferðir eru bókaðar með skömmum fyrirvara og um leið og ferðin er farin kemur bakfærsla frá kortafyrirtækinu um að færslan hafi verið gerð í óleyfi.

Fjöldi fyrirtækja í ferðaþjónustu hefur lent í svikum sem þessum og hafa einhver þeirra lent í margra milljóna króna tjóni. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Fyrirtækja í ferðaþjónustu, kom í Reykjavík síðdegis til að ræða um þessi svindl.

„Þetta snýst í gruninn um stolinn kortanúmer, að minnsta kosti að stórum hluta, sem síðan eru notuð til að greiða fyrir þjónustu og í gegnum þá síður eða færsluhirða þar sem er ekki verið að notast við svokallað 3-D Secure,“ segir Jóhannes spurður út í svindlið. 

3-D Secure er öryggisskref sem byggist á því að fólk þarf að staðfesta viðskipti sín með staðfestingarkóða eða rafrænum skilríkjum.

Krafa um endurgreiðslu að ferðinni lokinni

„Það sem gerist síðan er að bókunin er keypt í gegnum iðulega einhvern erlendan endursöluaðila, kemur þaðan til íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja sem sjá bókun í kerfinu hjá sér og hún hefur verið greidd með einhverju korti,“ segir hann.

„Síðan koma ferðamannahóparnir, nýta þjónustuna og um leið og hópurinn er horfinn á braut þá kemur svokölluð „charge-back“-krafa um að þjónustan sé endurgreidd vegna þess að korthafinn segir að hann hafi ekki veitt heimild fyrir greiðslunni.“

Skilmálar alþjóðlegra kortafyrirtækja séu strangir þegar kemur að slíkum málum og endurheimti peninginn gegnum færsluhirðinn sem rukki svo fyrirtækin.

„Þetta getur valdið verulegum kostnaði fyrir fyrirtækin. Mér sýnist svona á öllu á þeim dæmum sem við erum búin að sjá núna á síðasta mánuðinum þá sé þetta orðinn kostnaður sem er að velta á einhverjum milljónum, jafnvel hjá hverju fyrirtæki,“ segir Jóhannes Þór.

Ákveðin sameiginleg einkenni má sjá á þessum sviksamlegu bókunum.Vísir/Vilhelm

Hægt að sigta út ákveðnar bókanir

Eru menn alveg ráðalausir? Er ekkert hægt að gera til að stemma stigu við þessu?

„Það er svosem hægt að gera það. Þetta eru aðallega bókanir sem eru að koma frá Asíumarkaðnum í gegnum einn færsluhirði frekar en aðra. Þetta eru bókanir sem er líka hægt að horfa á í kerfinu og sigta út,“ segir Jóhannes.

Einhver ferðaþjónustufyrirtæki hafi skoðað að loka á bókanir sem fara ekki í genum 3-D Secure kerfið. 

„En það getur verið útilokandi fyrir hluta af kúnnahópnum vegna þess að það er stór hluti Bandaríkjamanna og fólks utan Evrópu sem er ekki með þetta kerfi,“ segir Jóhannes.

„Síðan er hægt að horfa í bókanirnar og reyna að átta sig á einkennunum á þessum bókunum og hafna þeim fyrirfram og endurgreiða. Það er eitthvað sem fyrirtækin eru farin að gera,“ segir hann.

Ferðamennirnir virðist meðvitaðir um svindlið

En það eru ekki hóparnir sem eru að svindla heldur milliaðilarnir sem eru í líki ferðaþjónustuaðila sem er að selja ferðir til Íslands. Er þetta svoleiðis?

„Já, en okkur sýnist þó að það sé vitneskja um þetta hjá viðkomandi hópum. Á grunni þess hve hratt endurkröfurnar koma, þær koma bara þegar búið er að nýta þjónustuna. Það gefur til kynna að það sé vitneskja þarna,“ segir Jóhannes.

Hvað eru þetta stórir hópar?

„Það getur verið allt frá klassísku pari upp í stóra hópa, 20-30 manns, það eru engin mörk á því. Geta verið alls konar stærðir á hópum sem verið er að þjónusta,“ segir Jóhannes.

Þekkt að asískir hópar reyni að komast hjá reglum

Jóhannes segir það þekkt hérlendis að asískir ferðahópar hafi farið ákveðnar leiðir til að komast framhjá lögum og reglum.

„Til dæmis litlir hópar sem hafa verið að ferðast um á bílaleigubílum sem fjölskylda en ekki sem leiðsögumenn til að komast hjá reglum um leiðsögumenn, ökumenn og ökuréttindi,“ segir Jóhannes. 

Þá sé ferðamönnunum sagt að ef lögreglan stoppi bílinn skuli þau segjast vera í fjölskylduferð en ekki skipulagðri ferð með leiðsögumanni.

Bókunarfyrirtækin með tengsl inn í hópana

Í tilfellum þessara bókunarsvindla virðist sem fyrirtækið eða ferðaskrifstofan séu með tengsl inn í ferðamannahópana sjálfa.

„Einhver skipuleggjandi sem er að minnsta kosti með tengsl við viðkomandi hóp, fulltrúa í ferðinni eða eitthvað slíkt, sem kemur upplýsingum á milli,“ segir hann.

Þannig fólk er að bóka sig í ferð sem það veit að er svindlferð og að það er ekki að fara að borga fyrir þjónustuna?

„Það er hugsanlegt að það sé tilfellið en það er erfitt að fullyrða það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×