Samkvæmt frétt RÚV var það oddviti Flokks fólksins sem fékk hæstu greiðslurnar. Þing er ekki komið saman en nýkjörnir þingmenn fengu engu að síður greidd laun um síðustu mánaðamót. Og það sem meira er, þingmennirnir fengu raunar tvöfalda launagreiðslu nú þegar nýtt ár gekk í garð því Alþingi greiddi afturvirk laun fyrir desembermánuð og framvirk fyrir janúar.
„Þingfararkaup alþingismanna er rúmlega 1525 þúsund krónur.“
Í fréttinni kemur fram að tveir borgarfulltrúar og einn varaborgarfulltrúi hafi verið kjörnir til þings í nýafstöðnum kosningum en þeir hafi ekki beðist lausnar í borginni. Því fengu þeir fullar launagreiðslur bæði frá borginni og Alþingi.
Í samantektinni kemur fram að Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borginni, hafi verið launahæst borgarfulltrúanna, með 1650 þúsund krónur í laun á mánuði frá Reykjavíkurborg. „Með þingfararkaupinu hljóða laun hennar upp á tæplega 3,2 milljónir króna, og þegar framvirkt þingfararkaupið bætist við eru það um 4,7 milljónir króna.“
Á hæla henni koma svo þeir Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs sem var með 1550 þúsund krónur í mánaðarlaun hjá borginni sem þýðir um 4,6 milljónir króna frá hinu opinbera í janúar. Og Pawel Bartoszek varaborgarfulltrúi Viðreisnar má vel við una. Hann var með um 1140 þúsund krónur í laun frá Reykjavíkurborg og fékk því tæpar 4,2 milljónir í laun um mánaðamótin.