Innlent

Ríkis­stjórnin óskar nú eftir sparnaðarráðum frá for­stöðu­mönnum

Árni Sæberg skrifar
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hefur boðað aukið hagræði í ríkisrekstri.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hefur boðað aukið hagræði í ríkisrekstri. Vísir/Vilhelm

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafa ritað forstöðumönnum hjá ríkinu bréf þar sem óskað er eftir hugmyndum og sjónarmiðum um hvernig megi hagræða í rekstri ríkisins.

Þetta segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðssins. Áður hafði ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur óskað eftir hagræðingartillögum frá öllum almenningi. Í samráðsgátt stjórnvalda hafa þegar safnast 3107 sparnaðartillögur.

Nauðsynlegt til að fá betri innsýn

Í tilkynningu segir að í bréfinu segi meðal annars að sjónarmið stjórnenda hjá ríkinu séu nauðsynleg til að fá dýpri innsýn í þau hagræðingartækifæri sem til staðar séu. 

Forstöðumenn séu beðnir um tillögur að hagræðingu, einföldun stjórnsýslu og sameiningu stofnana.

Stofna starfshóp

Fjallað verði um tillögur, hugmyndir og sjónarmið sem berast frá forstöðumönnum í starfshópi á vegum forsætisráðuneytisins. Niðurstöður þeirrar vinnu verði nýttar til að móta áætlun til lengri tíma um umbætur í rekstri ríkisins. Samhliða verði unnið með tillögur úr fyrri samráðsferlum við stjórnendur og starfsfólk ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×