Innlent

Mjög fínt að vera hætt sem sveitar­stjóri

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Iða Marsibil Jónsdóttir, sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps.
Iða Marsibil Jónsdóttir, sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps. Vísir/Magnús Hlynur

Iða Marsibil Jónsdóttir hefur látið af störfum sem sveitarstjóri í Grímsnes- og Grafningshreppi eftir tveggja og hálfs árs starf.

Iða var kynnt til leiks sem sveitarstjóri í júlí 2022 að loknum sveitarstjórnarkosningum sem voru afar spennandi í hreppnum. E-listinn, Listi óháðra lýðræðissinna, fékk 51 prósent atkvæða í sveitarstjórnarkosningunum í maí en G-listinn, Framboðslisti um framsýni og fyrirhyggju, fékk 49 prósent. Aðeins munaði sex atkvæðum af þeim 290 sem greidd voru listunum tveimur.

Iða segir í samtali við fréttastofu að um hafi verið að ræða sameiginlega niðurstöðu hennar og sveitarstjórnar.

„Það var ekkert ósætti, bara sameiginleg niðurstaða,“ segir Iða Marsibil sem endurnýjaði kynni sýn við hreppinn þar sem hún dvaldi á sínum yngri árum. Hún segist kveðja með góðar minningar í fararteskinu, hellingur sé að gerast í hreppnum og þangað hafi verið gaman að koma aftur í smá stund.

„En það var líka ágætt að leiðir skildu núna, mjög fínt.“

Hún segir starf sveitarstjóra krefjandi og spyr hvort það séu ekki tíu prósent af sveitarstjórum að hætta? Tveir slíkir náðu kjöri sem þingmenn í kosningunum í nóvember. Mánuður er síðan bæjarstjóri Fjallabyggðar hætti störfum. Þrír á sex vikum.

Iða Marsibil, sem var í tíunda sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi í nýliðnum Alþingiskosningum, vill ekki upplýsa að svo stöddu hvort hún sé komin með nýtt starf.

„Það verður ekki gefið upp að svo stöddu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×