Innlent

Kaldasta árið á landinu í rúman aldar­fjórðung

Kjartan Kjartansson skrifar
Úrkoma í Reykjavík var rétt undir meðallagi í fyrra en sumarið var óvenjublautt.
Úrkoma í Reykjavík var rétt undir meðallagi í fyrra en sumarið var óvenjublautt. Vísir/Vilhelm

Óvenjukalt var á landinu í fyrra ef miðað er við veðurfar á þessari öld. Árið var það kaldasta frá 1998. Sumarið einkenndist af lægðagangi og óhagstæðri tíð með fáum hlýjum dögum.

Meðalhitinn á landinu í fyrra var 0,8 gráðum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 og hefur ekki verið lægri í 26 ár, að því er kemur fram í samantekt um tíðarfar ársins 2024 á vef Veðurstofunnar. Sumarið í heild var blautt á öllu landinu en aðrir mánuðir voru tiltölulega þurrir. 

Hæsti hiti sem mældist á landinu í fyrra var 27,5 stig á Egilsstaðaflugvelli 14. júlí. Mesta frostið mældist -28,6 stig í Svartárkoti 31. desember en það var jafnframt lægsti hiti ársins í byggð.

Þrátt fyrir að 2024 sé svalasta árið frá 1998 var síðarnefnda árið ekki sérstaklega kalt ár á sínum tíma. Meðalhiti 1998 var ekki fjarri þrjátíu ára meðallagi áranna 1961 til 1990 sem þá var miðað við. Árið í fyrra var engu að síður kalt miðað við það sem landsmenn hafa átt að venjast síðustu árin.

Á heimsvísu var árið í fyrra það hlýjasta frá því að mælingar hófust. Á Íslandi var það í 77.-78. sæti á því 151 ári sem mælingasagan spannar.

Mesta sólarhringsúrkoma í júlí sem mælst hefur á landinu

Árið í heild var þurrara en í meðallagi fyrir á austan-, sunnan- og suðvestanverðu landinu en blautara á Norður- og Vesturlandi.

Vorið var nærri meðallagi í hita en aðríl var kaldur, sérstaklega á Norðausturlandi. Norðanvert landið fékk einnig að kenna á nokkuð langvinnu norðanhreti sem gekk yfir landið í byrjun sumars. Snjóaði óvenjumikið þá miðað við árstíma.

Mikil vætutíð tók svo við en sumarið var óvenjublautt, sérstaklega á Vestur- og Norðurlandi. Mikil vatnsveður gengu yfir landið nokkrum sinnum yfir sumarið og fylgdu þeim vatnavextir í ám og lækjum. Aurskriður féllu þar sem úrkoman var sem áköfust.

Langmesta úrkoman mældist í Grundarfirði í vatnsveðri sem gerði á Vesturlandi dagana 13. og 14. júlí. Þá mældust 235,2 millímetrar sem er mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur á landinu í júlí.

Dagar sem hiti mældist tuttugu stig eða meira einhvers staðar á landinu voru 29 þetta sumarið en þeir voru 48 sumarið 2023.

Þótt sumarið væri ekki upp á marga fiska var veturinn 2023 til 2024 nokkuð hagstæður, að mati Veðurstofunnar. Þá var tiltölulega hægviðrasamt, þurrt og góð tíð með fáum illviðrum. Hiti var vel undir meðallagi um allt landið, en þó var ekki eins kalt og veturinn á undan þar sem gerði langa kuldakafla.

Nóvember sveiflaðist öfganna á milli. Fyrri hluti hans var óvenjuhlýr og á mörgum mánuðum hafa fyrstu fjórtán dagar mánaðarins aldrei mælst hlýrri, fjórum til fimm stigum yfir meðatali. Hæsti hitinn sem mældist var 23,8 stig á Kvískerjum í Öræfum sem er landsmet í nóvember. 

Um miðjan mánuðinn kólnaði hratt og var hitinn vel undir meðallagi út mánuðinn. Meðalhiti haustsins var undir meðallagi þrátt fyrir nóvemberhlýindin.

Hitavik hvers mánaðar 2024 í Reykjavík og Akureyri frá meðalhita áranna 1991 til 2020.Veðurstofa Íslands

Reykjavík

Árið var enn svalara í Reykjavík en á landinu í heild. Meðalhitinn var 4,3 stig, 0,9 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 1,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Hæsti hiti ársins í Reykjavík mældist 17,4 stig 15. júlí og aftur 3. ágúst. Þetta var lægsti hámarkshiti í borginni frá 2001.

Ársúrkoma í höfuðborginni mældist 827,7 millímetrar sem er 95 prósent af ársúrkomu áranna 1991 til 2020 en 88 prósent af úrkomunni síðustu tíu árin. Flestir mánuðir ársins voru tiltölulega þurrir en seinni hluti vorsins og sumarið var óvenjublautt.

Úrkomudagar voru 144, tíu færri en þrjátíu ára meðaltalið. Mesta sólarhringsúrkoman mældist 23,6 millímetrar 12. janúar.

Þrátt fyrir svalt sumarið voru sólarstundir í Reykjavík árið 2024 1.459,3 talsins og 91 fleiri en meðaltalið frá 1991 og 120 stundum fleiri en meðaltalið síðustu tíu árin.

Alhvítir dagar í Reykjavík voru 48 í fyrra, sjö færri en að meðaltali 1991-2020. Mesta frostið í borginni mældist -10,8 gráður 9. febrúar. 

Akureyri

Meðalhitinn á Akureyri í fyrra var 3,3 stig, einu stigi undir meðallagi 1991-2020 og 1,3 stigum undir meðallagi síðasta áratugsins. Hæsti hitinn mældist 23,8 stig 30. júní en mesta frostið -18,7 stig 18. janúar.

Ársúrkoman mældist 585,2 millímetrar sem var tvö prósent yfir meðallagi áranna 1991-2020 en 91 prósent af heildarúrkomu síðustu tíu ára. Úrkomudaga voru 117, níu fleiri en þrjátíu ára meðaltalið. Mesta sólarhringsúrkoma var 23,4 millímetrar 23. febrúar.

Febrúar, mars og apríl voru úrkomusamir fyrir norðan, óvenjulega blautt í júní og ágúst en annars þurrt.

Sólskinsstundir voru 1.192,1 sem var 141 stund fleiri en að meðaltali á milli 1991 og 2020 og 89 fleiri en síðustu tíu árin.

Alhvítir dagar voru 122 talsins, 27 fleiri en í meðalári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×