Sigurður Ingi Jóhannsson þáverandi innviðaráðherra tók fyrstu skóflustunguna af nýju brúnni 20. nóvember síðastliðinn en brúin mun kosta um 18 milljarða króna í byggingu. Byggð verður 330 metra löng brú.
En hvað eruð þið að fara með út í eyjuna?
„Gröfu, bor og búnað. Þetta er spennandi verkefni en smá krefjandi”, segir Árni Kópsson, eigandi fyrirtækisins Vatnsborun og prammans.
Brúin fer yfir Efri Laugardælaeyju í Ölfusá og í dag var byrjað að ferja ýmsa hluti yfir í eyjuna til að hefja þar rannsóknar áður en að smíði brúarinnar kemur.
„Þar á að fara í jarðvegsrannsóknir fyrir stöpul brúarinnar, sem á að rísa hér. Þetta er náttúrulega svo sem ekki nema lítill hluti verksins, það eru þessar rannsóknir en þetta er þó undirbúningur fyrir það sem koma skal á næstu árum,” segir Höskuldur Tryggvason, verkefnisstjóri á framkvæmdadeild Vegagerðarinnar.

Er þetta ekki bara spennandi og skemmtilegt ?
„Jú, það verður mjög spennandi og skemmtilegt að fylgjast með þessu rísa hérna. Við áætlun að fyrstu bílarnir fara yfir nýju brúna í október 2028”, bætir Höskuldur við.
