Þetta kemur fram í uppfærðum tengiliðalista fyrir Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, sem fjölmiðlum barst síðdegis.
Þar kemur fram að samhliða því að E. Agnes var skipuð yfirlögregluþjónn hafi Ævar Pálmi Pálmason tekið við starfi hennar sem aðstoðaryfirlögregluþjónn skipulagðrar glæpastarfsemi. Ævar Pálmi var áður aðstoðaryfirlögregluþjónn kynferðisbrota. Í tilkynningunni segir að Bylgja Hrönn Baldursdóttir hafi tekið við þeirri stöðu af honum.
Í samtali við Vísi segir Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, kynningarfulltrúi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að fimm hafi sótt um embætti yfirlögregluþjóns. Þá sé skipunin merkileg fyrir þær sakir að kona hafi aldrei áður gengt stöðunni hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Ævar Pálmi sótti um
Í svari við fyrirspurn fréttastofu segir Gunnar Rúnar að einn þeirra fimm sem sóttu um hefi dregið umsókn sína til baka. Umsækjendur hafi auk Agnesar verið þeir Halldór Rósmundur Guðjónsson, Þórir Ingvarsson og áðurnefndur Ævar Pálmi Pálmason.
Stöður aðstoðaryfirlögregluþjóna skipulagðrar brotastarfsemi og kynferðisbrota hafi ekki verið auglýstar heldur hefði verið sett í þær tímabundið.
Áratugareynsla
Í tilkynningu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um skipun Agnesar segir að hún búi yfir áratugareynslu af lögreglustarfinu, en hún hafi hafið störf hjá lögreglunni í Reykjavík vorið 1991. Agnes hafi starfað þar til ársloka 2006 og síðan hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá ársbyrjun 2007 þegar lögregluliðin á höfuðborgarsvæðinu voru sameinuð.
Hún hafi unnið við almenna löggæslu um árabil og síðan í tæknideildinni í rúmlega áratug, sem lögreglufulltrúi. Agnes hafi orðoð aðstoðaryfirlögregluþjónn árið 2020 og stýrt lögreglustöðinni á Vínlandsleið í Reykjavík til 2023. Hún hafi þá tekið við sem aðstoðaryfirlögregluþjónn skipulagðrar brotastarfsemi og gegnt því starfi til síðustu mánaðamóta.
„Um leið og við óskum Agnesi innilega til hamingju með ráðninguna væntum við áfram mikils af störfum hennar.“