Innlent

„Við verðum að hafa fólkið með okkur“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Helga Þórðardóttir, oddviti Flokks fólksins, ætlar að ræða við bakland sitt og grasrót flokksins á næstu dögum.
Helga Þórðardóttir, oddviti Flokks fólksins, ætlar að ræða við bakland sitt og grasrót flokksins á næstu dögum. Vísir/Vilhelm

Helga Þórðardóttir, oddviti Flokks fólksins í borginni, segir oddvita hinna flokkanna sem nú ræða saman vera yndislegar konur. Næsta verkefni sé að ræða við baklandið og grasrótina.

Margrét Helga Erlingsdóttir náði tali af oddvitum VG, Sósíalistaflokks og Flokks fólksins eftir fund fyrir utan heimili Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, oddvita Samfylkingarinnar, í dag. Helga Þórðardóttir segir síðustu daga hafa verið eins og rússíbanareið.

Þetta eru ansi óvænt tíðindi fyrir þig og búið að vera annasamir dagar?

„Ekkert smá, þetta er búið að vera rússíbani og mér finnst eins og þetta sé búið að vera mánuður,“ sagði Helga.

Hvernig leggst þessi mögulegi vinstri meirihluti í þig við fyrstu sýn?

„Bara yndislegar konur og ef við náum saman þá er það flott. Þetta er náttúrulega stuttur tími sem við höfum þannig við yrðu að hafa ákveðin verkefni,“ sagði hún.

Næst á dagskrá að ræða við baklandið

„En vitiði það, það er voðalega erfitt að tala um þetta þegar við erum bara með þreifingar og maður er ekki búinn að tala við baklandið sitt. Nú ætla ég að hafa þau með mér,“ sagði Helga.

Næst á dagskrá er að tala við baklandið?

„Baklandið og grasrótina. Þetta er óheppilegur tími, þingið að byrja og ráðherrarnir að byrja. Svolítið erfitt að ná í fólk á þessum tíma,“ sagði hún.

Ef baklandið reynist jákvætt gagnvart þessari hugmynd er ekki einboðið að fara í formlegar meirihlutaviðræður?

„Þá förum við náttúrulega að ræða saman en það kemur í ljós,“ sagði hún.

Enginn fundur settur á áður en þið ræðið við baklandið?

„Nei nei, enginn fundur. Við verðum að hafa fólkið með okkur,“ sagði Helga að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×