Enski boltinn

Lýsandi Sky Sports baðst af­sökunar á um­mælum um United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stuðningsmenn Manchester United hafa ekki upplifað margar sigurstundir í vetur.
Stuðningsmenn Manchester United hafa ekki upplifað margar sigurstundir í vetur. ap/Dave Thompson

Wayne Mardle, lýsandi á Sky Sports, baðst afsökunar á að hafa ef til vill móðgað stuðningsmenn Manchester United vegna ummæla sem féllu í viðureign Lukes Littler og Stephens Bunting í úrvalsdeildinni í pílukasti.

Fjórða keppniskvöld úrvalsdeildarinnar í pílukasti fór fram í Exeter í gær. Luke Humphries hrósaði sigri en hann vann heimsmeistarann Littler í úrslitaviðureigninni.

Littler mætti Bunting í átta manna úrslitunum. Mardle og Stuart Pyke, sem lýstu leiknum á Sky Sports, skutu aðeins á Bunting og tengdu vandræði hans við slæmt gengi United í ensku úrvalsdeildinni.

„Á þessu getustigi færðu erfitt próf í hverri viku. Þú færð enga hvíld. Þú færð ekki leik gegn Manchester United þarna í úrvalsdeildinni. Til að létta á pressunni,“ sagði Pyke. Mardle var fljótur að bregðast við.

„Við biðjum alla þá sem móðguðust við þetta afsökunar,“ sagði Mardle léttur.

Fullt tilefni hefur verið til að henda gaman að gengi United í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Liðið er í 14. sæti hennar og hefur aðeins unnið níu af 28 leikjum sínum. United sigraði nýliða Ipswich Town í fyrradag, 3-2.

Næsti leikur United er gegn Fulham í sextán liða úrslitum ensku bikarkeppninnar á sunnudaginn. United er ríkjandi bikarmeistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×