Á Hlíðarenda vann Valur góðan þriggja marka sigur, lokatölur 29-26. Úlfar Páll Monsi Þórðarson var markahæstur í liði Vals með átta mörk. Þar á eftir kom Allan Norðberg með sex mörk. Í markinu varði Björgvin Páll Gústavsson 11 skot.
Jón Ómar Gíslason var markahæstur í liði Gróttu með 10 mörk. Þá varði Magnús Gunnar Karlsson 10 skot í markinu.
Valur er nú með 30 stig að loknum 20 leikjum. FH er með stigi minna í 2. sæti ásamt því að Hafnfirðingar eiga leik til góða.
Í Kópavogi var Fram í heimsókn hjá HK. Fór það svo að gestirnir unnu fimm marka sigur, lokatölur 33-38.
Kári Tómas Hauksson, Sigurður Jefferson Guarino og Hjörtur Ingi Halldórsson voru markahæstir með sex mörk hver í liði HK. Í markinu vörðu Róbert Örn Karlsson og Jovan Kukubot samtals 14 skot.
Í liði Fram voru Þorsteinn Gauti Hjálmarsson og Ívar Logi Styrmisson markahæstir með átta mörk hver. Reynir Þór Stefánsson kom þar á eftir með sjö mörk. Í markinu vörðu Arnór Máni Daðason og Breki Hrafn Árnason samtals 19 skot.
Fram er í 3. sæti með 29 stig á meðan HK er með 16 stig í 8. sæti.