Handbolti

Björg­vin Páll strax kallaður aftur í lands­liðið

Sindri Sverrisson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson er mættur aftur í íslenska landsliðshópinn fyrir leikina við Grikki.
Björgvin Páll Gústavsson er mættur aftur í íslenska landsliðshópinn fyrir leikina við Grikki. vísir/Anton

Viktor Gísli Hallgrímsson verður ekki með íslenska landsliðinu í komandi leikjum gegn Grikkjum í undankeppni EM, vegna meiðsla. Björgvin Páll Gústavsson hefur því verið kallaður inn í hans stað. Meiðslalisti íslenska liðsins er orðinn óhemju langur.

Það verður því tuttugu ára aldursmunur á markvarðapari Íslands því fyrir er í íslenska hópnum nýliðinn Ísak Steinsson sem mun feta í fótspor afa síns, Sigurgeirs Sigurðssonar, með því að spila sína fyrstu A-landsleiki.

Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari hafði sagt að eflaust væri Björgvin Páll hundfúll með að fá ekki sæti í hópnum gegn Grikkjum en nú er orðið ljóst að hann verður með eftir allt saman.

Íslenski hópurinn kemur saman í dag og á morgun í Grikklandi og hefur þá formlegan undirbúning fyrir leik liðanna sem er á miðvikudaginn klukkan 17. Seinni leikurinn er svo í Laugardalshöll næsta laugardag klukkan 16.

Ísland hefur unnið báða leiki sína til þessa í undankeppninni og er í góðum málum í undankeppninni fyrir EM sem fram fer í Danmörku, Svíþjóð og Noregi í byrjun næsta árs. Riðill Íslands verður í Kristianstad í Svíþjóð, nema svo ólíklega fari að Ísland komist ekki á mótið.

Afar mikið er um meiðsli í íslenska hópnum og því mikið um forföll. Lykilmenn eins og Gísli Þorgeir Kristjánsson, Ómar Ingi Magnússon og Elvar Örn Jónsson eru ekki með. 

Viggó Kristjánsson er einnig meiddur sem og Teitur Örn Einarsson, svo að þrjár af helstu hægri skyttum liðsins eru úr leik vegna meiðsla.

Línumaðurinn Arnar Freyr Arnarsson er að komast af stað aftur eftir meiðsli og þeir Sveinn Jóhannsson og Bjarki Már Elísson, sem báðir voru í HM-hópnum, eru einnig ekki með núna en báðir meiddust á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×