Í fréttum Stöðvar 2 var rifjað upp að síðasta eldgos stóð frá 20. nóvember til 9. desember. Það var næststærsta í röð þeirra sjö eldgosa sem orðið hafa á þessari gossprungu undanfarna fimmtán mánuði.
Sjö vikur er núna liðnar frá því Veðurstofan tilkynnti að líkur á nýju kvikuhlaupi eða jafnvel eldgosi færu vaxandi og þann 30. janúar lýstu almannavarnir yfir hættustigi.
En eftir því sem vikurnar líða án eldgoss fjölgar eflaust þeim sem spyrja: Kemur kannski ekkert gos? Er goshrinunni á Sundhnjúksgígaröðinni kannski lokið?
„Þarna akkúrat þar myndi ég halda kannski eitt eldgos. En ég er kannski frekar á því að þetta sé bara búið,“ svarar Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur en bætir við:
„En svo eru náttúrlega Eldvörpin eftir, Reykjanestáin er eftir, Krýsuvík er eftir, Bláfjöllin eru eftir og hver veit nema Hengillinn komi með eitthvað smá líka.“

Ármann segir ljóst að hægt hafi á landrisi og þá hafi hætt að vella upp úr borholu á Vatnsleysuströnd sem hafi verið einn mælikvarðinn.
„Hún er ekki að vella og á meðan hún vellur ekki þá þurfum við kannski ekki að hafa miklar áhyggjur. En hvort að þessu sé örugglega lokið það náttúrlega verður tíminn að leiða í ljós,“ segir Ármann.
Hann telur allt eins líklegt að umbrotin færist utar og ítrekar það mat sitt að næst í röðinni verði Eldvörp og Reykjanestá en þar gæti gosið í sjó. Hann segir þó ljóst á talsverður fyrirvari yrði á því með skjálftahrinum þegar skorpan væri að brotna upp aftur.

-En af það kæmi nú eitt gos í viðbót á Sundhnúksgígaröðinni hvenær ættum við að búast við því?
„Ég get ómögulega sagt um það. Var ekki Þorvaldur að tala um að það yrði einhverstaðar í kringum vorjafndægur eða eitthvað svoleiðis? En ég get ekkert spáð um það,“ svarar Ármann.