Íslenski boltinn

„Verður einn okkar allra mikil­vægasti leik­maður“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kiddi Freyr verður áfram á Hlíðarenda.
Kiddi Freyr verður áfram á Hlíðarenda. vísir / Diego

Kristinn Freyr Sigurðsson hefur framlengt samning sinn við Val í Bestu deild karla í knattspyrnu til loka tímabilsins 2026. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Valur sendi frá sér í dag, þriðjudag.

Í tilkynningunni er miðjumanninum ausið lof og sagt að möguleiki sé á árs framlengingu að samningnum loknum. Kristinn Freyr er fæddur 1991 og hefur að mestu verið í Val frá árinu 2012. Hann verður á 35. aldursári þegar samningur hans við félagið rennur út næsta haust.

„Það er mjög ánægjulegt að framlengja við Kidda sem er og verður einn okkar allra mikilvægasti leikmaður. Hann hefur verið hjá okkur meira og minna frá árinu 2012 með smá ævintýrum í Svíþjóð og Hafnarfirði. Hér líður Kidda best og okkur líður alltaf vel þegar hann er inni á vellinum,“ segir Breki Logason, formaður meistaraflokksráðs Vals, í tilkynningu félagsins.

„Kiddi hefur sýnt okkur það að hann stígur upp þegar á þarf að halda. Hann er orðinn grjótharður Valsari og er einn af þessum jákvæðu leiðtogum liðsins. Á meðan það eru enn töfrar í löppunum á Kidda þá verður hann í Val.“

Valur mætir ÍR í undanúrslitum Lengjubikars karla klukkan 19.15. Leikurinn er sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×