Valskonur tryggðu sér deildarmeistaratitilinn með öruggum sigri á Gróttu í gærkvöld og verja þar með titilinn frá því í fyrra. Það gafst ekki mikill tími til að fagna því enda stórleikur við Iuventa frá Slóvakíu á dagskrá á sunnudaginn kemur. Þar er sæti í úrslitum EHF-bikarsins undir.
Valur getur orðið fyrsta íslenska kvennaliðið í sögunni til að fara í úrslit í Evrópu og segist Hildigunnur, sem hættir í vor, staðráðin í að skrifa söguna áður en skórnir fara upp í hillu.
„100 prósent. Ég setti mér það markmið í vetur, þegar var ljóst að þetta yrði síðasta tímabilið mitt að nú myndi ég njóta. Þetta er búið að vera extra langt í vetur og mörg ferðalög. Handboltinn er búinn að ganga fram yfir allt hjá manni, og hjá öllum í liðinu. Það er bara gott að enda síðasta tímabilið þannig og ég er extra mikið að reyna að njóta,“ segir Hildigunnur.
„Það væri helvíti gaman að enda ferilinn svona, sérstaklega þegar þess að vitum að við erum í bullandi séns að gera þetta. Við erum ekkert að ljúga að sjálfum okkur með það. Það væri sögulegt að gera eitthvað svoleiðis í lokin áður en skórnir fara á hilluna og maður finnur sér eitthvað annað gera,“ bætir hún við.
Valur mætir Iuventa klukkan 17:30 á sunnudaginn kemur. Liðið er tveimur mörkum undir eftir fyrri leik liðanna ytra.
Fleira kemur fram í viðtalinu sem má sjá í spilaranum að ofan.