Á næsta HM fær sigurvegarinn eina milljón punda í staðinn fyrir fimm hundruð þúsund pund sem hafa verið sigurlaunin undanfarin sjö ár. Ein milljón punda samsvarar rúmlega 171 milljón íslenskra króna.
Sá sem lendir í 2. sæti á HM fær fjögur hundruð þúsund pund (68,5 milljónir íslenskra króna) í stað tvö hundruð þúsund punda og þeir tveir sem tapa í undanúrslitum fá tvö hundruð þúsund pund (34 milljónir íslenskra króna) í stað hundrað þúsund punda áður.
Heildarverðlaunaféð á heimsmeistaramótinu 2026 verður fimm milljónir punda (857 milljónir íslenskra króna) og hækkar um helming.
„Milljón punda fyrir heimsmeistarann sýnir stöðu pílukastsins sem eins af mest spennandi og vinsælustu íþróttum heims,“ sagði Matt Porter, framkvæmdastjóri pílusambandsins (PDC).
Þá verður keppendum á HM fjölgað um 32. Á næsta heimsmeistaramóti keppa því 128 manns í stað 96 áður.
Verðlaunaféð á öðrum mótum á vegum PDC hækkar einnig veglega, eða úr sjö milljónum punda í 25 milljónir (4,3 milljarðar íslenskra króna). Sigurvegari úrvalsdeildarinnar fær til að mynda 350 þúsund punda (sextíu milljónir íslenskra króna) í stað 275 þúsund punda áður.