Íslenski boltinn

Gylfa aftur spáð titlinum en spáin röng síðan 2020

Sindri Sverrisson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson landaði ekki sínum fyrsta bikar í fyrra, eins og spáð var, en er aftur spáð Íslansdmeistaratitli í ár.
Gylfi Þór Sigurðsson landaði ekki sínum fyrsta bikar í fyrra, eins og spáð var, en er aftur spáð Íslansdmeistaratitli í ár. vísir/Hulda Margrét

Keppinautar Víkings geta huggað sig við það að árleg spá fyrirliða, þjálfara og formanna félaganna, um verðandi Íslandsmeistara, hefur ekki gengið eftir síðustu ár.

Víkingum er spáð sigri í Bestu deild karla í fótbolta í haust en leiktíðin hefst núna um helgina. Þetta er annað árið í röð þar sem að liði Gylfa Þórs Sigurðssonar er spáð titlinum því Valsmönnum var spáð sigri fyrir ári síðan.

Það fór þó svo að Valur endaði í 3. sæti og Breiðablik, sem nú er spáð 2. sæti, stóð uppi sem Íslandsmeistari.

Spáin fyrir 2024:

  1. Valur
  2. Víkingur
  3. Breiðablik
  4. Stjarnan
  5. KR
  6. FH
  7. KA
  8. Fram
  9. ÍA
  10. Fylkir
  11. Vestri
  12. HK

Lokastaðan 2024:

  1. Breiðablik (+2 sæti)
  2. Víkingur (rétt)
  3. Valur (-2)
  4. Stjarnan (rétt)
  5. ÍA (+4)
  6. FH (rétt)
  7. KA (rétt)
  8. KR (-3)
  9. Fram (-1)
  10. Vestri (+1)
  11. HK (+1)
  12. Fylkir (-2)

Það hefur raunar ekki gerst síðan árið 2020 að leikmenn, þjálfarar og formenn félaganna í deildinni spái rétt fyrir um Íslandsmeistara, þegar þeir spáðu Valsmönnum titlinum eins og raunin varð. Eftir það var Breiðabliki og Víkingi til skiptis spáð titlinum en unnu hann aldrei þegar þeim var spáð honum.

Breiðabliki var spáð titlinum 2023 en þá vann Víkingur. Víkingi var spáð titlinum 2022 en þá vann Breiðablik. Árið 2021 var svo Breiðabliki spáð titlinum en Víkingur vann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×