Undir lok síðasta árs fóru notendur Strætó að geta greitt fargjald í gegnum snertilausar lausnir, til dæmis með kortinu í símanum. Þannig þarf ekki að vera með Klappið, smáforrit Strætó, til að greiða fyrir farið.
„Þetta er svona að hefja sig til flugs í heiminum. Þetta er aðeins öðruvísi en snertilausar greiðslur í verslunum, þetta er alveg sérstaðall fyrir strætisvagna,“ segir Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó. „Þetta er rosalega einfaldur og þægilegur greiðslumáti. Allir eru með símann sinn. Við sjáum bara línulegan vöxt í notkun á snertilausum greiðslum.“
Nýjungum fylgja oft ákveðnir hnökrar. Einhverjir strætónotendur hafa lent í því að hafa keypt miða í Klappinu, lagt símann upp við skannan til að skanna miðann, en óvart greitt aftur með kortinu í símanum og þannig tvígreitt fyrir farið.
„Við höfum alveg heyrt af þessu en þetta er bara í símum með Android-stýrikerfinu. Þetta eru nokkur tilvik á viku og við endurgreiðum fólki að sjálfsögðu þegar slíkt kemur upp,“ segir Jóhannes.
Það hefur gengið illa að framkalla þessa villu í rauntíma og því reynst erfitt að laga vandamálið. Android-notendur geta þó breytt stillingum í símanum svo þetta komi ekki fyrir.
„Þar getur þú, ef þú vilt, stillt símann þannig að hann þarf ekki auðkenningu til að greiða, og það er vandamálið. Það er hægt að komast fram hjá þessu með að slökkva á NFC-kerfinu (Near-field communication) áður en þú greiðir í vagninum, og kveikt svo aftur á því,“ segir Jóhannes.