Skoðun

Það á að hafa af­leiðingar að níðast á varnar­lausu fólki

Kristján Þórður Snæbjarnarson skrifar

Á mínum nýja vinnustað, Alþingi, hefur stundum verið rætt um íslenskan vinnumarkað af mikilli vanþekkingu eða hreinlega hroka. Þá hafa það oftar en ekki verið fulltrúar atvinnurekenda í þingliðinu sem vilja meina að staða launafólks sé of sterk, að launafólk ráði för þegar kemur að því að ákvarða launahækkanir, það gangi ekki og að það þurfi að grípa til aðgerða til að veikja stöðu þess.

Á íslenskum vinnumarkaði hefur brotastarfsemi hins vegar lengi fengið að viðgangast án mikilla inngripa atvinnurekenda eða hins opinbera.

Vinnustaðaeftirlit verkalýðsfélaganna hefur hin seinni ár komið upp um fjölda brota þar sem farið hefur verið illa með starfsfólk. Oftar en ekki eru þetta einstaklingar í félagslega veikri stöðu, erlent vinnuafl, venjulegt fólk.

Vinnustaðaeftirlitið hefur meðal annars komið upp um alvarleg mansalsmál og verkalýðsfélögin í kjölfarið gripið til aðgerða til að grípa þetta verkafólk og veitt því húsaskjól og stuðning.

Gleymum því ekki að þessi hópur er varnarlaus. Stuðningsnet þessa fólks er sjaldnast til staðar hér á landi. Verkalýðsfélögin bera hitann og þungann af þessu eftirliti og gera það alfarið á sinn kostnað.

Flest tilvik sem koma upp í eftirlitinu tengjast aðbúnaði og launaþjófnaði þar sem launafólk fær ekki greitt fyrir þá vinnu sem það sinnir og ekki greitt í samræmi við ákvæði kjarasamninga.

Og hver eru viðurlögin við því að brjóta vísvitandi á starfsfólki með þessum hætti? Fram til þessa dags hafa þau verið lítil.

Því miður er tjón fyrirtækja sama og ekkert þegar upp kemst um launaþjófnað. Jú, fyrirtækin þurfa að leiðrétta launin, en það er allt og sumt. Það er kominn tími til þess að Alþingi grípi inn í og setji lög með skýru ákvæði um févíti. Stöndum með fólkinu.

Þess má geta að í dag verður rætt um brot gegn verkafólki og fleiri mál á málstofu Verkalýðsmálaráðs Samfylkingarinnar, sem hefst kl. 17:00 í félagsheimili Samfylkingarinnar við Strandgötu í Hafnarfirði. Ég hvet alla til að mæta.

Höfundur er alþingismaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Sjá meira


×