Sport

Eyþóra með gullna endur­komu: „Kennslu­stund í glæsi­leika“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensk-hollenska fimleikakonan Eyþóra Elísabet Þórsdóttir fagnar gullinum með hollensku fimleikakonunni Sönnu Veerman.
Íslensk-hollenska fimleikakonan Eyþóra Elísabet Þórsdóttir fagnar gullinum með hollensku fimleikakonunni Sönnu Veerman. @eythora

Íslensk-hollenska fimleikakonan Eyþóra Elísabet Þórsdóttir átti frábæra endurkomu í hóp þeirra bestu á heimsbikarmóti í Osijek í Króatíu í gær.

Eyþóra meiddi sig illa á ökkla í aðdraganda Ólympíuleikanna í París og missti fyrir vikið af leikunum. Hún átti þá góða möguleika á því að komast á sína þriðju Ólympíuleika í röð en ekkert varð að því vegna meiðslanna.

Hún lét þau risastóru vonbrigði ekki brjóta sig niður og sýndi styrk sinn á stóra sviðinu í gær.

Eyþóra komst í úrslit í bæði gólfæfingum og í æfingu á jafnvægisslá.

Enginn gerði betur en Eyþóra á jafnvægisslánni þar sem hún fékk 13.900 í einkunn og tók gullið.

Alþjóða fimleikasambandið birti myndband af siguræfingunni á miðlum sínum undir fyrirsögninni „Kennslustund í glæsileika“ eða „Elegance clinic“ á ensku.

Eyþóra er fædd og uppalin í Hollandi en á íslenska foreldra. Hún hefur alltaf keppt fyrir Holland og fór á Ólympíuleikana í Ríó 2016 og í Tókýó 2021.

Hér fyrir neðan má sjá gullæfingu hennar á jafnvægisslánni með því að smella í myndina hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×