Erlent

Neita enn að hleypa AP frétta­mönnunum að

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Donald Trump heldur fámenna blaðamannafundi á skrifstofu sinni í Hvíta húsinu.
Donald Trump heldur fámenna blaðamannafundi á skrifstofu sinni í Hvíta húsinu. EPA

Stjórn Bandaríkjaforseta bannar enn fréttamönnum AP fréttaveitunnar að sitja blaðamannafundi forsetans þrátt fyrir að bandarískur dómari hefur dæmt í málinu.

Málið hófst um miðjan febrúar þegar AP fréttaveitan neitaði að kalla Mexíkóflóa Ameríkuflóa í umfjöllun sinni en Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fyrirskipaði að nafni flóans yrði breytt. Af þeim sökum kom stjórn Trump í veg fyrir að fréttamenn fréttaveitunnar fengju að sitja blaðamannafundi með forsetanum líkt og áður.

Stjórn AP fór með málið fyrir dóm þar sem úrskurðað var að bannið væri ólögmætt. Að sögn dómarans í málinu mætti ekki koma í veg fyrir aðgang blaðamanna að Hvíta húsinu vegna sjónarmiða þeirra. Hann sagði hins vegar ekki að AP fréttaveitan ætti að fá að sitja fámenna blaðamannafundi með forsetanum líkt og áður.

AP fréttaveitan hafi alltaf fengið að sitja fundi forsetans í hópi nokkurra blaðamanna.

Þrátt fyrir dóminn bannar stjórnin enn fréttamönnum AP að sitja fundina. Í dag voru fréttamaður og fréttaljósmyndari meinaður aðgangur að sporöskjulaga skrifstofu forsetans þar sem hann fundaði með Nayib Bukele, forseta El Salvador.

Stjórn Trumps hefur áfrýjað dómnum og samkvæmt AP fréttaveitunni segja þeir að banninu verði ekki aflétt fyrr en þeir hafa leitað allra leiða til að viðhalda banninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×