Sport

Vara­for­seti Banda­ríkjanna braut bikarinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
JD Vance, varaforseti Bandaríkjanna, sést hér reyna að setja bikarinn aftur saman ásamt þjálfara Ohio State háskólaliðsins, Ryan Day.
JD Vance, varaforseti Bandaríkjanna, sést hér reyna að setja bikarinn aftur saman ásamt þjálfara Ohio State háskólaliðsins, Ryan Day. Getty/Win McNamee

JD Vance, varaforseti Bandaríkjanna, tók á móti meistaraliði Ohio State háskólans í Hvíta húsinu en bauð upp á vandræðalegt atvik.

Það má búast við því að fólk muni minnast heimsóknarinnar fyrir klaufagang varaforsetans með bikarinn.

Ohio State er heimafylki Vance og þetta átti að vera stór stund fyrir hann. Vanalega er það forsetinn sjálfur sem er í aðalhlutverki í móttöku meistaraliða í Hvíta húsinu en þarna fékk Vance tækifærið sem hann missti bókstaflega út úr höndunum.

Hann ætlaði að taka upp bikarinn fyrir myndatöku með öllu liðinu en tókst einhvern veginn að brjóta bikarinn. Myndatakan fór fram en það vantaði fótinn á bikarinn.

Bikarinn datt í gólfið og fór í sundur. Ekki tókst Vance að setja ann aftur saman en hvort hann sé mikið skemmdur er þó ekki vitað. Þetta var að sjálfsögðu algjörlega óviljandi.

Ohio State tryggði sér háskólatitilinn í ameríska fótboltanum með 34-23 sigri á Notre Dame háskólanum í úrslitaleiknum. Þetta var fyrsti titill skólans í tíu ár og sá níundi frá upphafi.

Hér fyrir neðan má sjá klaufagang JD Vance með bikarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×