Íslenski boltinn

„Við stóðum af okkur storminn“

Gunnar Gunnarsson skrifar
Elísa Viðarsdóttir er fyrirliði Vals.
Elísa Viðarsdóttir er fyrirliði Vals. Vísir/Jón Gautur

Elísa Viðarsdóttir, fyrirliði Vals, tók undir með þjálfara sínum Matthíasi Guðmundssyni eftir sigur liðsins á nýliðum FHL í 2. umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta. 

Eftir markalaust jafntefli við FH í 1. umferð fór Valur austur og mætti FHL í Fjarðabyggðarhöllinni. Um var að ræða fyrsta leik FHL á heimavelli á leiktíðinni. Fór það svo að Valur vann 2-0 útisigur.

„Frammistaðan var heilt yfir góð. Við byrjuðum sterkar en þær unnu sig hægt og rólega inn í leikinn. Þær eiga síðan góð hlaup seinni 45 mínúturnar en við stóðum af okkur storminn.“

Hún hrósaði FHL fyrir frammistöðuna og umgjörðina í fyrsta leiknum á Austurlandi í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu í yfir 30 ár. 

„Það var frábært að koma hingað og sjá þessa geggjuðu umgjörð, sem maður vill sjá í öllum leikjum. Við höfðum greinilega gaman af því og vorum í banastuði í byrjun.

FHL er gott lið með frábæra leikmenn. Þeir hafa mikinn hraða og eru skeinuhættur þannig við þurftum alltaf að vera á tánum. Við vissum af því og bjuggum okkur undir það þannig við áttum heilt yfir góðan leik og vörðumst þeirra hættulegustu vopnum,“ sagði Elísa að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×