Herinn gerði árás á húsnæði Sameinuðu þjóðanna í Deir al-Balah þann 19. mars með þeim afleiðingum að búlgarskur starfsmaður samtakanna lést og fimm aðrir særðust alvarlega. Árásin var gerð daginn eftir að herinn hóf árásir af fullum þunga á ný eftir að tveggja mánaða vopnahlé á Gasa leystist upp.
Í framhaldinu sögðu talsmenn hersins hann ekki bera ábyrgð á árásinni.
„Þvert á frásagnir gerði Ísraelsher ekki árás á aðsetur Sameinuðu þjóðanna í Deir el-Balah. Ísraelsher biðlar til fjölmiðla að fara varlega með óstaðfestar frásagnir,“ sagði í yfirlýsingu frá hernum á þeim tíma.
Rannsókn Ísraelshers á málinu, sem António Guterres aðalritari Sameinuðu þjóðanna gerði ákall eftir eftir árásina, virðist nú hafa leitt annað í ljós.
Í yfirlýsingu frá hernum segir að hermönnum hafi láðst að bera kennsl á bygginguna sem aðsetur Sameinuðu þjóðanna og haldið að inni í henni væri andstæðingur sem þyrfti að ráða af dögum.
Fram kemur að rannsókninni sé ekki lokið og að Sameinuðu þjóðunum verði gert kunnugt um niðurstöður hennar um leið og unnt er. Þá segir að Ísraelsher biðjist afsökunar á árásinni og votti aðstandendum hins látna samúð sína.