Innlent

Byrja að sekta þremur vikum eftir lok nagladekkjatímabilsins

Árni Sæberg skrifar
Lögregla hefur ekki enn hafið að sekta fólk fyrir notkun nagladekkja.
Lögregla hefur ekki enn hafið að sekta fólk fyrir notkun nagladekkja. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu minnir ökumenn á að frá og með 15. apríl ár hvert er ekki heimilt að aka á nagladekkjum. Þó mun lögreglan ekki byrja að beita sektum fyrr en 5. maí næstkomandi, þremur vikum eftir lok nagladekkjatímabilsins.

„Þá er veturinn formlega að baki og sumarið hefur tekið við! Af því tilefni vill Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hvetja ökumenn, sem það á við, að skipta út nagladekkjunum,“ segir í færslu embættisins á vef lögreglunnar.

Í ljósi tíðarfarsins undanfarið og veðurspár næstu daga sé óþarfi að vera á nagladekkjunum núna, en frá og með mánudeginum 5. maí geti ökumenn bifreiða búnum nagladekkjum, átt von á sekt. Til samanburðar hóf embættið að beita sektum nokkru seinna í fyrra, eða þann 13. maí.

Þá birtir lögreglan mynd sem tekin var um miðjan dag á einu dekkjaverkstæða borgarinnar í fyrradag. Þá hafi verið lítill sem enginn biðtími þegar rennt var í röðina til að skipta út nagladekkjunum.

Þessi mynd er tekin um miðjan dag í vikunni. Þá var lítil röð á þessu dekkjaverkstæði.Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu



Fleiri fréttir

Sjá meira


×